Forsvarsmenn Skógræktarinnar í Skarðsdalskógi hafa miklar áhyggjur því að tvisvar í sumar hefur verið kveiktur opinn eldur í skóginum. Annað skiptið var kveiktur eldur á skógarstígnum við rústir Skarðsdalskots sem er þakinn trjákurli og er ekki vitað hver var þar að verki. Hitt skiptið var hlaðinn upp viðarköstur á opna svæðinu við grillið, var það hópur unglingsstráka að verki og brugðust þeir ókvæða við afskiptasemi hinna fullorðnu þegar þeim var gert að slökkva bálið.
Kristrún Halldórsdóttir formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar vil benda á að þetta er stórhættuleg iðja og getur orðið til þess að þessi náttúruperla Siglufjarðar fuðri upp. Foreldrar og forsvarmenn barna og unglinga eru beðnir að brýna það fyrir sínum að þetta er ljótur leikur sem getur endað illa.