Árið 2017 var stofnað Félag um kaup á töfrateppi (KÁT), sem hefur það markmið að aðstoða við uppbyggingu skíðasvæðisins á Siglufirði í Fjallabyggð með kaupum og uppsetningu á töfrateppi.

Í tilefni af 100 ára afmælis Skíðafélags Siglufjarðar – Skíðaborgar (SSS) létu Vildarvinir Siglufjarðar framleiða USB-lykla með þáttunum “Siglufjörður – Saga bæjar” til notkunar í fjáröflun á KÁT. 

Töfrateppið er byrjendalyfta sem hentar flestum sem vilja taka fyrstu skrefin til að njóta þess að renna sér á skíðum, hvort sem þeir eru börn eða fullorðnir.


Söfnunin er komin vel á veg og nú hafa safnast yfir 5,5 milljónir króna af þeim 8,5 milljónum króna sem áætlað eru að verkefnið kosti. Fjölmargir einstaklingar og sjóðir hafa styrkt verkefnið en einnig hópar eins og Árgangur 1950 sem styrkti það með peningagjöf að upphæð 175.000 kr.

Framleiðandi þáttanna var Ragnheiður Thorsteinsson en umsjón með textagerð hafði Egill Helgason. Hægt er að styrkja verkefnið með 5.000, 7.500 eða 10.000 króna framlagi gegn umræddum USB-lykli. Vildarvinir Siglufjarðar munu afhenda SSS USB-lyklana á Síldarminjasafni Íslands föstudaginn 17. Júlí kl 17:00. Afhending til þeirra sem styrkja verkefnið fer svo fram í framhaldinu.

Reikningsnúmerið er: 0348-13-300108.
Kennitalan er: 470417-1290
Sendið kvittun á: jongardar79@gmail.com

Til Árgangs 1950, Vildarvina Siglufjarðar og allra þeirra sem lagt hafa verkefninu liðsinni, viljum við sem að félaginu stöndum, koma á framfæri innilegu þakklæti.  Við trúum því að nú séum við á endasprettinum – með ykkar hjálp komumst við alla leið í mark!

Kær kveðja, 

Anna Marie Jónsdóttir og fjölskylda.

Forsíðumynd: SSS
Aðsent.