Fleiri lög við ljóð og texta Siglfirðinga
Ljóðasetur Íslands hefur nú verið með beinar útsendingar frá viðburðum á setrinu 24 daga í röð á fésbókarsíðu sinni. Viðburðirnir eru kl. 16.00 alla daga og síðan er áfram hægt að horfa á upptökur af þeim á síðunni. Viðtökur hafa verið fram vonum Þórarins, fostöðumanns setursins, og vill hann koma á framfæri kærum þökkum fyrir góðar kveðjur og gott áhorf.
Þegar þetta er ritað hefur verið horft á nokkrar af þessum upptökum yfir 2.000 sinnum. Sú sem vinsælust er, og horft hefur verið á rúmlega 2.500 sinnum, eru lög Þórarins við ljóð eftir Siglfirðinga eða tengd Siglufirði. Þar flytur Þórarinn eigin lög við ljóð Hannesar Jónassonar bóksala, Guðlaugs Sigurðssonar (Laugi póstur), Sverris Páls Erlendsson, Bjarka Árnason o.fl.
Á morgun, fimmtudaginn 9. apríl, ætlar Þórarinn að flytja eigin lög við ljóð og texta fleiri Siglfirðinga. Þar má t.d. nefna Bylgju Hafþórsdóttur, Sigurð Örn Baldvinsson, Laugja póst og glænýtt lag við ljóð Sigurbjargar Hjálmarsdóttur. Sem og lög samin við ljóð um Siglufjörð eftir Ingólf Jónsson frá Prestbakka og Stefán Hörð Grímsson.
Mynd: skjáskot af beinni útsendingu frá Ljóðasetrinu.