Undirritaður er mjög mikill áhugamaður um íþróttamál og aðstöðu íþróttamanna hér í Fjallabyggð, þá ekki síst um knattspyrnumál og hef ég, í gegnum tíðina komið mikið að þeim málum.
Því miður hefur aðstöðuleysi til knattspyrnuiðkunnar hamlað mjög starfi KF og við þess vegna setið eftir í samanburði við nágrannasveitafélög okkar. KF hefur óskað eftir betri aðstöðu í mörg ár en lítið hefur orðið ágengt í þeim málum, þ.e.a.s. að byggja upphitaðan gervigrasvöll sem myndi nýtast nánast allt árið og iðkendur þyrftu hvorki að fara til Akureyrar að æfa yfir vetrarmánuðina né keppa fyrstu leiki á vorin. Vegna þess að völlurinn á Ólafsfirði er yfirleitt ekki leikfær fyrr en um miðjan júní ár hvert.
Ég fylltist mikilli bjartsýni og jákvæðni fyrir einum mánuði þegar mér bárust þær fregnir að flokkarnir þrír sem ætla að bjóða sig fram til sveitastjórnar, væru allir með á stefnuskrá sinni að nú ætti að byggja gervigrasvöll og KF sæi fram á góða aðstöðu, sambærilega við flest félög á landinu.
Þetta gæti ekki klikkað þar sem öll framboðin væru á sama máli.
En viti menn …, stefnuskrár flokkana eru opinberar …, og hvar standa gervigrasmálin ?
H listinn: ekki stafur um gervigrasvöll.
I listinn : það á að hefja uppbyggingu á gerfingrasvelli á kjörtímabilinu.
Að hefja uppbyggingu finnst mér ekki loforð að klára gervigrasvöllinn á kjörtímabilinu og finnst að þarna þyrfti að vera fastar kveðið að málum.
D Listinn er með í sinni stefnuskrá að byggja nýjan gervigrasvöll í Ólafsfirði með lýsingu og bættri aðstöðu fyrir áhorfendur. Algjört loforð og meira til. Einnig að bæta aðstöðu í íþróttahúsinu á Siglufirði sem er ekki boðleg og þarfnast úrbóta þótt fyrr hefði verið. Þessar tvær framkvæmdir sem snúa að íþróttamálum eru mjög kostnaðarsamar. Íþróttaáhugafólk í Fjallabyggð ætti að gleðjast yfir að svo miklum fjármunum sé varið til íþróttamála sem nýtist flestum bæjarbúum þ.e.a.s. ef þetta verður framkvæmt.
Sjálfstæðisflokkurinn í Fjallabyggð bauð íbúum að koma að mótum sinnar stefnuskrár. Ég var einn af þeim sem tók þátt í því og fagna mjög þessum lýðræðislegu störfum þar sem bæjarbúum gafst kostur á að koma með tillögur.
Staðreyndin er sú að margar að þessum tillögum eru í stefnuskrá Sjálfstæðisfokksins og því ber að fagna. Mikil og góð vinna var lögð í stefnuskrána, allir gjaldaliðir reiknaðir og tekjur líka og getum við staðið við allt sem þessi metnaðarfulla og góða stefnuskrá tekur á.
Bendi ég bæjarbúum að lesa og kynna sér þessa stefnuskrá sem tekur á mjög mörgum þáttum t.d. lækkun fasteignarskatta, hækkun á afsláttum til eldriborgara og öryrkja. Hækkunar á systkinaafslætti af vistunargjöldum leikskóla. Hækkunar á frístundarstyrk til barna og unglinga.
Auka niðurgreiðslu á skólamáltíðum. Halda áfram að gefa grunnskólabörnum námsgögn. Hafa frítt í sund og líkamsrækt fyrir öryrkja og eldri borgara. Gera mikið átak í umhverfis og skipulagsmálum. Hækka styrk til aðildarfélaga Ungmenna og íþróttasambands Fjallabyggðar úr 6,5 milljónum í 10 milljónir.
Halda áfram uppbyggingu íþróttamannvirkja í samstarfi við íþróttafélög og rekstraraðila.
Ljúka við endurbyggingu á vegi upp að golfskála í Skeggjabrekku o.s.frv.
Mjög metnaðarfull stefna um fræðslumál, frístundir , forvörnum markaðs og menningarmálum og styðja við uppbyggingu í atvinnumálum og tekið á mörgum velferðamálum sem koma sér vel fyrir nánast alla bæjarbúa.
Ég sem mikill íþróttaáhugamaður og hef alltaf talað fyrir því að peningum okkar sé hvergi betur varið en til íþróttastarfsemi, sama hvaða íþrótt það er, íþróttir eru forvarnir og okkur líður vel að vita af börnum okkar sem stunda íþróttir, til þessa að svo sé hægt þurfa allir að hafa góða aðstöðu og með þessari metnaðarfullri stefnuskrá sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð sem lögð hefur verið fram og hægt er að standa við, hvet ég þig, kjósandi góður að setja X við D á kjördag 26 maí.
Þorsteinn Þorvaldsson
Mynd og texti: Aðsent