Hekla-heilbrigðisnet og Lyfseðlagátt, liggja nú niðri og hafa gert síðan um kl. 13 í dag. Ástæðan er enn óljós. Allir helstu sérfræðingar Advania, sem hýsa kerfið, vinna að greiningu og úrlausn málsins með sérfræðingum frá Origo, sem þróa og þjónusta kerfið. Enn er óljóst hve langan tíma tekur að leysa vandann.

Ólafur Adolfsson lyfsali hjá Apóteki vesturlands á Akranesi sagði eftirfarandi um þessa bilun á facebook fyrr í dag. “Sú staðreynd að lyfseðlagátt skuli liggja niðri um allt land í nærfellt heilan dag er með hreinum ólíkindum. Til að bíta höfuðið af skömminni veita ábyrgðaraðilar kerfisins engar upplýsingar um bilunina eða úrbætur fyrr en eftir því er gengið. Rétt er að benda á að ný lyfjalög sem eru komin inn á Alþingi gera ekki ráð fyrir að þessi staða geti komið upp – ef til vill kallar þessi atburður á endurskoðun ákvæða um takmarkanir á útgáfu annarra lyfjaávísana en rafrænna?”

Bilunin kemur í veg fyrir að hægt sé að senda rafræna lyfseðla og afgreiða lyf í lyfjabúðum. Bilunin kemur einnig í veg fyrir öll rafræn samskipti milli aðila sem veita heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. vottorð, beiðnir, læknabréf og aðgang úr sjúkraskrám á milli aðila.

Embætti landlæknis á og rekur Heklu-heilbrigðisnet en hýsir kerfið hjá Advania.  Högun kerfisins á að koma í veg fyrir að samskipti um kerfið geti farið niður, en kerfið er speglað á netþjóna í sitthvorum landshlutanum. Kerfið á að geta farið sjálfkrafa á milli netþjóna ef annar bilar án þess að hafa í för með sér rekstrartruflanir.

 

Mynd: pixabay