Björgunarsveitin Tindur í Ólafsfirði er með öflugt unglingastarf og er þar starfsrækt unglingadeildin Garpur.

Kl. 20.00 á þriðjudögum mæta þar um 16 – 20 unglingar og fá allskonar fræðslu og þjálfun, undir leiðsögn björgunarsveitarmanna.

Nokkrir leiðbeinendur úr björgunarsveitinni stjórna þjálfun ungmennanna og þriðjudagskvöldið 27. nóvember voru þeir Baldur Ævar Baldursson og Guðmundur Ingi Bjarnason með hópinn. Þjálfunin hófst með því að klæða krakkana upp í galla frá björgunarsveitinni því kalt var úti og allir fengu einnig höfuðljós.

Unglingarnir gallaðir upp fyrir kulda og vosbúð.

 

Björgunaráætlun teiknuð upp á töflu.

Búið var að teikna upp á töflu björgunaraðgerðir miðað við að bátur hefði farist við ströndina og tveggja manna var saknað.

Haldið var af stað út í kuldann og myrkrið, á bíl björgunarsveitarinnar og annars leiðbeinandans. Áfangastaður Ólafsfjarðará og fjaran þar í kring.

 

Leiðbeinendurnir Guðmundur Ingi Bjarnason og Baldur Ævar Baldursson.

 

Auðvitað verður að taka hóp-selfie

 

Skiptu þau sér í tvo hópa með sitthvorum leiðbeinandanum og gengu af stað að leita að tveimur mönnum. Að lokum gekk annar hópurinn fram á liggjandi mann (leiðbeinendurnir voru búnir að fara fyrr um daginn og koma fyrir tveimur dúkkum í fjörunni).

Hann var tilkynntur á lífi en meðvitundarlaus. Farið var með hann í bíl björgunarsveitarinnar og komið undir læknishendur. Seinni maðurinn (dúkkan) fannst skömmu síðar og ljóst var að mannbjörgun átti sér stað, þótt útlitið hafi verið svart þegar lagt var af stað í þennan “björgunarleiðangur”.

Með þessu öfluga unglingastarfi björgunarsveitarinnar Tinds fá framtíðar liðsmenn sveitarinnar ómetanlega þjálfun, skemmtilega samveru með hreyfingu og fræðslu.

 

Allir að setja upp höfuðljós áður en lagt er í hann út í myrkrið.

 

Bíll björgunarsveitarinnar.

 

Hópnum skipt upp og lagt af stað með sitthvorum leiðbeinandanum.

 

Búið að finna manninn (dúkkuna).