Áhugasamir nemendur við Menntaskólann á Tröllaskaga í áföngunum, inngangur að félagsvísindum og tilveru, nutu fræðslu um starf Anmesty Intertanional í gær. Hera Sigurðardóttir, ungliða- og aðgerðastýra frá Íslandsdeildinni kynnti starfsemi samtakanna hér heima og erlendis.

Amnesty International er alþjóðleg mannréttindahreyfing með yfir sjö milljónir félagsmanna í meira en 150 löndum. Hreyfingin skipuleggur baráttu til að vernda og verja mannréttindi. Ásamt því stendur Íslandsdeildin fyrir starfi ungliðahreyfingar, fjáröflun og fræðslu um mannréttindi. Hera kynnti sérstaklega árlega herferð samtakanna sem nefnist “bréf til bjargar”. Hún er alþjóðleg og með henni er þrýst á stjórnvöld víða um heim að koma þolendum mannréttindabrota til hjálpar. Hægt er að taka þátt með því að gefa undirskrift sína rafrænt og skrifa þannig undir tíu áríðandi mál einstaklinga sem beittir eru alvarlegum órétti. Sjá hér: https://amnesty.is/ 

Hera lagði áherslu á að hvert lítið skref skiptir máli. Hún sýndi nemendum myndband af Moses, ungum manni frá Nígeríu, sem var hafður fyrir rangri sök, pyntaður og fangelsaður án dóms og laga í tíu ár. Síðan var hann dæmdur til dauða. Árið 2014 barðist Amnesty fyrir hans máli með “bréfi til bjargar” og fóru rúmlega 16.000 undirskriftir/bréf frá Íslandi af 800.000 alls. Þessi bréf björguðu Moses og hefur hann ferðast um og sagt sögu sína. Nemendur litu líka sér nær og skoðuðu eigin réttindi og íhuguðu hvað megi bæta hér á landi varðandi réttindi fatlaðra, hinsegin fólks og flóttamanna.

 

Mynd: Gísli Kristinsson