Lögreglan á Norðurlandi vestra vill vekja athygli ökumanna á erfiðum akstursskilyrðum í landshlutanum en mikil hálka er mjög víða á vegum.
Nokkur umferðaróhöpp hafa orðið vegna þessa í gær og í dag og vill lögreglan brýna fyrir ökumönnum að haga akstri í samræmi við aðstæður hverju sinni.
Umferðaróhapp varð í gær þar sem bifreið fór útaf og valt. Ökumaður bifreiðarinnar komst af sjálfsdáðum upp á veg aftur þar sem hann þurfti að bíða í um 10 mínútur þar til að vegfarandi stöðvaði til aðstoðar. Á þeim tíma óku fjölmargir bílar framhjá viðkomandi ökumanni þrátt fyrir að hann hafi verið sýnilega slasaður og þurft aðstoð.
Lögreglan biðlar til fólks að í tilvikum sem þessum sé stöðvað strax og viðkomandi veitt sú aðstoð sem hægt er hverju sinni og jafnframt kallað strax eftir aðstoð viðbragðsaðila á vettvang.
Enginn veit hver er næstur og ekkert okkar vill að við, börnin okkar, einhver nákominn eða í raun hver sem er þurfi að upplifa það að ekið sé framhjá viðkomandi án þess að veita aðstoð og kalla til viðbragðsaðila í tilfellum sem þessum. Slíkt er með öllu óboðlegt.
Lögreglan hvetur ökumenn til að sýna tillitsemi í umferðinni, haga akstri eftir aðstæðum og koma fram við aðra í umferðinni eins og þú vilt láta aðra koma fram við þig.
Meðfylgjandi mynd var tekinn við Varmahlíð í dag og sýnir mun á veghita (-8,7) og lofthita (0) og þar með þá hættu sem getur skapast á ísingu.
Sjá einnig facebooksíðu lögreglunnar á NV