Í gær var aðalfundur Markaðsstofu Ólafsfjarðar haldinn á Kaffi Klöru í Ólafsfirði. Vel var mætt á fundinn og mikill og jákvæður hugur hjá fundargestum.

Á fundinn mætti Björn Reynisson verkefnastjóri fyrir áfangastaða-áætlun hjá Markaðsstofu Norðurlands. Hélt hann góðan og fróðlegan fyrirlestur um Norðurstrandarleið og hvernig best er fyrir fyrirtæki að koma sér á framfæri á þeirri leið.

Bjarney Lea Guðmundsdóttir formaður Markaðsstofu Ólafsfjarðar flutti skýrslu stjórnar um starfsemi síðasta árs og var þar af mörgu að taka enda starfsemin með eindæmum kraftmikil. Einnig fór hún yfir það helsta sem framundan er.

Síðan voru almennar umræður um starfið, þar sem meðal annars kom fram að fólki er velkomið að taka þátt í kraftmiklu og uppbyggilegu starfi Markaðsstofu Ólafsfjarðar, hvort sem það starfar við ferðaþjónustu eða ekki.

 

Björn Reynisson frá Markaðsstofu Norðurlands

 

Kaffi Klara er aðili að Norðurstrandarleið