Matvælastofnun er opinber eftirlitsaðili með dýravelferð á Íslandi. Undanfarið hefur stofnunin fengið nokkrar spurningar frá fjölmiðlum varðandi aðgerðir þegar lög og reglugerðir á þessu sviði eru brotin. Til glöggvunar eru hér birt svör Matvælastofnunar við spurningum fréttamanns RÚV 28.10.2022:
1) Hvað þarf til að skepnur séu teknar af fólki?
Svar: Vörslusvipting á dýrum telst vera mjög alvarleg aðgerð þar sem um er að ræða að taka eignir af fólki enda þótt fjármunir komi stundum í staðinn. Vörslusvipting byggist annars vegar á 37.gr. dýravelferðarlaga (almenn vörslusvipting) og hins vegar á 38.gr. sömu laga (vörslusvipting þegar úrbætur þola ekki bið). Í 37.gr. kemur fram að skilyrði fyrir beitingu hennar er að umráðamaður dýra hafi ekki sinnt fyrirmælum innan tilgreinds frests. Í 38.gr. kemur hins vegar fram að skilyrði fyrir beitingu hennar er að úrbætur þoli enga bið og að fyrir liggi að dýr hafi orðið fyrir varanlegum skaða sökum vanfóðrunar, harðýðgi, slysa eða slæms aðbúnaðar. Það þarf því nokkuð mikið til að 38.gr. verði beitt.
Þegar um vörslusviptingu er að ræða er yfirleitt notast við 37.gr. en þá þarf að gæta að andmælarétti áður en endanleg ákvörðun er tekin. Eftir að búið er að taka ákvörðun um vörslusviptingu skv. 37.gr. eru dýrin komin í vörslu stofnunarinnar og á ábyrgð hennar. Stofnuninni er heimilt að láta aflífa dýr sem hún hefur vörslur yfir skv. 37.gr. en áður en það er gert þurfa að líða tveir sólarhringar. Á þeim tíma ber bæði MAST og eigandanum að finna viðeigandi aðstæður eða aðbúnað fyrir dýrin. Ef slíkt ber engan árangur eru dýrin aflífuð. Beiting 37.gr. tekur því nokkurn tíma áður en endanleg niðurstaða fæst.
Ef stuðst er við 38.gr. er stofnunin undanþegin því að veita andmælarétt og sömuleiðis er ekki um neinn tveggja sólarhringa frest að ræða. Það er því mun skjótvirkari aðgerð en skilyrði fyrir beitingu hennar eru líka strangari. Vörslusviptingin á hestunum í Borgarnesi byggði á 38.gr.
2) Ef skepnur eru teknar af fólki getur fólk fengið sér dýr aftur og jafnvel hafið búskap?
Svar: Í dýravelferðarlögum er hvergi gert ráð fyrir að leyfi MAST þurfi fyrir almennu dýrahaldi, hvort sem um er að ræða gæludýr eða búskap. Umfangsmikið og tæknivætt dýrahald er þó skylt að tilkynna til MAST áður en starfsemi hefst. Mjólkurbændur þurfa starfsleyfi (oft kallað mjólkursöluleyfi) frá MAST en það byggist á matvælalögum en ekki dýravelferðarlögum. MAST getur svipt mjólkurbændur þessu starfsleyfi á grundvelli matvælalaga (matvælaöryggi ábótavant).
MAST getur ekki bannað fólki að halda dýr. Slíkt er einungis hægt með dómi ef aðili hefur gerst sekur um stórfellt eða ítrekað brot á dýravelferðarlögum. Komið hefur fyrir þegar MAST kærir mál til lögreglu að stofnunin fari fram á að hlutaðeigandi verði auk refsingar dæmdur frá að halda dýr. Endanleg ákvörðun um slíkt er í höndum dómstóla. Stjórnvaldssektir MAST eiga hins vegar að veita aðhald og stuðla að þeir dýraeigendur sem fá slíkar sektir bæti úr velferð dýra sinna.
3) Hver er réttur fólks til að halda dýr á móti rétti dýranna til velferðar? Hvar liggja þessi mörk?
Svar: Ef fyrirspurnin lýtur að því hvort fólk hafi almennt heimild til að halda dýr eða ekki þá er það hlutverk dómstóla en ekki MAST að ákveða þau mörk í refsimáli gegn hlutaðeigandi.
4) Ef skepnur eru teknar af fólki hvað verður þá um þau? Er þeim alltaf fargað eða getur fólk samið um að kaupa þau af MAST?
Svar: Það er yfirleitt neyðarúrræði að farga vörslusviptum dýrum eða senda þau í sláturhús. Það er hins vegar misskilningur að málið snúist um að kaupa vörslusvipt dýr af MAST. MAST verður aldrei eigandi dýranna. Þegar MAST sviptir eiganda vörslum dýra sinna eru þau áfram eign dýraeigandans. Hann hefur hins vegar ekki lengur vörslur þeirra. Á þessu er munur. Ef dýrin eru send í sláturhús fær eigandinn innleggið en ekki MAST. MAST getur hins vegar krafið hann eftir á um greiðslu kostnaðar við vörslusviptinguna ef einhver er. Ef um er að ræða búfé er kannað hvort einhver bóndi í nágrenninu geti tekið við gripunum eða keypt þá af eigandanum í þeirri von að ekki þurfi að koma til slátrunar á gripunum.
Ákvörðun um slátrun eða aflífun er ekki léttvæg og ekki tekin nema í kjölfar vandlegrar skoðunar á viðkomandi dýrum og mati á því hvað sé hverju og einu dýri fyrir bestu. Að hlutast til um sölu á dýrum í vafasömu líkamlegu ástandi getur verið óforsvaranlegt út frá sjónarmiðum dýravelferðar og almennu siðferði.
Í málum sem snúa að þéttleika gripa og þar sem fjöldi gripa er meiri en viðkomandi bóndi ræður við þrýstir Matvælastofnun oft á að búfé sé sent til slátrunar fyrr en ætlað var, jafnvel í málum sem ekki eru komin á mjög alvarlegt stig og sem hluti af fyrirbyggjandi aðgerðum. Slátrun búfjár verður því að teljast eitt mikilvægasta úrræðið til að stuðla að velferð dýra.
5) Er það rétt skilið að MAST hafi ekki heimild til að selja vörslusvipt dýr til áhugasamra kaupenda?
Svar: Ef á reynir mun MAST frekar stuðla að sölu dýrs frekar en að senda það í sláturhús. En stundum eru dýr það illa farin að réttast er að láta aflífa þau.
Mynd/mast.is