Matthías frá Skíðafélagi Ólafsfjarðar í þriðja sæti í Austurríki

Karlalandslið Íslands í alpagreinum átti frábæran keppnisdag í morgun þegar keppt var í stórsvigi í Gaal í Austurríki. Íslendingar tryggðu sér þrefaldan sigur í keppninni en Gauti sigraði, Bjarni Þór hafnaði í öðru sæti og Matthías Kristinsson frá Skíðafélagi Ólafsfjarðar endaði í þriðja sæti.

Allir þrír bættu FIS-punktana sína í keppninni sem hefur jákvæð áhrif á stöðu þeirra bæði á heimslista og á Ólympíulistanum þar sem baráttan um þátttökurétt heldur áfram að harðna.

Eftir fyrri ferðina var Bjarni Þór með besta tímann, Jón Erik næstbesta tímann og Gauti með fimmta besta tímann. Matthías var þá með tíunda besta tímann og Tobias í ellefta sæti, á meðan Pétur var í 29. sæti og fékk því annað startnúmer í seinni ferðinni.

Matthías frá Skíðafélagi Ólafsfjarðar í þriðja sæti í Austurríki

Í seinni ferðinni sýndi íslenska liðið mikinn styrk. Matthías átti þar frábæra ferð og skilaði besta tíma ferðarinnar sem lyfti honum upp í þriðja sæti samanlagt. Gauti var með annan besta tímann í seinni ferðinni sem dugði honum til sigurs á mótinu, á meðan Bjarni Þór var með sjöunda besta tímann og tryggði sér annað sætið.

Frétta- og fræðslusíða UÍF vakti athygli á úrslitunum og vísaði jafnframt á umfjöllun á heimasíðu Skíðasambands Íslands þar sem farið er yfir frammistöðu íslensku keppendanna í þessari sterku keppni.

Myndir: Skíðasambands Íslands / ski.is