Unnur Valborg Hilmarsdóttir f.h. Starfshóps um framtíðarskipan úrgangsmála á Norðurlandi, lagði fram erindi dags. 06.09.2019 til Bæjarráðs Fjallabyggðar er varðar umsögn starfshópsins til Umhverfisstofnunar um lokadrög að stefnu um meðhöndlun úrgangs. Þar tekur starfshópurinn undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 23.08.2019 og gerir að sinni.

Í umsögninni eru dregin fram lykilatriði sem starfshópurinn leggur áherslu á:

1. Mikið skortir upp á samráð við gerð stefnunnar.

2. Sveitarfélögin þurfa að hafa áfram svigrúm til að haga útfærslu á hirðu og annarri meðhöndlun úrgangs með tilliti til aðstæðna á hverjum stað.

3. Nauðsynlegt er að vönduð ábata- og kostnaðargreining fylgi stefnunni og öllum aðgerðum sem henni fylgja.

4. Verulega vantar upp á umfjöllun um innviði úrgangsmála í stefnunni.

5. Nauðsynlegt er að í stefnunni sé fjallað um mikilvægi öruggrar og lögmætrar förgunar úrgangs.

6. Í drögin vantar umfjöllun um þær úrbætur sem gera þarf á stjórnsýslu úrgangsmála til að tryggja farsæla innleiðingu stefnunnar.

7. Setja þarf fram framtíðarsýn hvað varðar framleiðendaábyrgð.

Starfshópurinn vinnur nú að hugmyndum um framtíðarskipan úrgangsmála á Norðurlandi öllu. Hópurinn áskilur sér rétt til að setja fram athugasemdir um málið á seinni stigum, einkum þegar þeirri vinnu lýkur. Hópurinn lýsir sig jafnframt viljugan til samstarfs við Umhverfisstofnun og Umhverfis- og auðlindaráðuneytið varðandi framhald þeirrar mikilvægu vinnu sem nú stendur yfir varðandi úrgangsmál enda er um að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir sveitarfélögin öll.

Bæjarráð Fjallabyggðar tekur undir umsögn Starfshóps um meðferð úrgangsmála á Norðurlandi.