Við sem höfum alið upp börn könnumst við njálgssýkingar. Ósjaldan vorum við foreldrar ungra barna látin vita af því að þessi óboðni gestur herjar á leikskóla og skóla. Var þá hafist handa við að útrýma njálgnum með tilheyrandi lyfi og stórþvotti á heimilinu.
Þó ég hafi nú ekki ferðast mikið í gegnum tíðina hef ég þó komið til suður og norður Ameríku, víða til Evrópu og nú undanfarin tvö ár til Spánar. Ávalt hef ég gætt mjög vel að öllu hreinlæti, drekk aldrei vatn út krana, sýð matvæli upp úr vatni sem keypt er í verslunum og vanda til þegar ég fæ mér að borða á veitingastöðum. Sest ekki á almennings salerni nema að þrífa þau áður með þar til gerðum klútum og er frekar smámunasöm þegar kemur að hreinlæti almennt.
Þar af leiðandi kom mér það algjörlega í opna skjöldu að vera sýkt af ormum í meltingarfærum og er það eitt það ógeðslegasta sem ég hef lent í á ævinni!
Forsaga þessa máls er að ég dvaldi þrjá mánuði á Kanarí síðla árs 2019 þar sem við hjónin erum að koma okkur fyrir í helli í fjöllunum og ætlum að dvelja þar framvegis á veturna. Þegar við komum út verð ég fljótlega mjög slæm í maganum, ég kenni þar um ólíkri þarmaflóru og öðruvísi mat. Þetta heldur svona áfram og fer að trufla mig í hinu daglega lífi. En þar sem mér finnst gaman að ganga og vil vera í hreyfingu fann ég fljótt að ég hafði ekki orku og var alltaf eins og það væri grjót í maganum.
Svona liðu rúmir tveir mánuðir og þrekið var afleitt, alltaf eins og ég væri hálf lasin og með stanslausa hungurtilfinningu. Gat ég ekki orðið aðstoðað manninn minn eins og ég vildi í þessum framkvæmdum sem voru svo skemmtilegar.
Svo var það að ég fór að finna fyrir slæmum verkjum og allskonar óþægilegum einkennum sem ég þekkti ekki. Fór þá til læknis sem hafði áhyggjur af því að þetta gæti tengst hjartanu og þá kransæðunum, enda konan komin af léttasta skeiði. Var ég lögð inná Hospiten Roca, einkarekið sjúkrahús á Kanarí. Fóru þar fram allskonar rannsóknir á mér en ekkert fannst sem gæti skýrt þess veikindi.
Eftir tvo daga á sjúkrahúsinu fór ég heim, mjög fegin því að ekkert fannst að mér, en alveg jafn slöpp. Um þetta leiti fór ég að finna fyrir blóðbragði í munninum, vaknað upp með blóðnasir (sem ég hef aldrei fengið), verki í maga, flökurleika og ferlega slæma líðan. Þegar þarna er komið er ég með mjög slæman niðurgang sem engan enda ætlaði að taka.
Maðurinn minn fer að hafa miklar áhyggjur af ástandinu á mér og kaupir allskonar stemmandi fæðu, eldar fyrir mig súpur og hrísgrjón, gefur mér vökva með steinefnum, bætiefni og notar allskonar ráð sem hann fletti upp á netinu til að hressa mig við. En ekkert dugði og vonaðist ég alltaf til að þetta færi nú að lagast.
Þrekið var þarna alveg búið og var það á aðfaranótt sunnudagsins 10. nóvember sem ég fer að fá óstöðvandi kuldaskjálfta þannig að fingur kreppast og verða dofnir og er skelfilega lasin um nóttina. Um morguninn verð ég vör við orsökina á þessum veikindum, ljósleita orma um 2 cm langa. Mér varð mikið um að sjá þá, enda ekki það fyrsta sem okkur frá norðurhjara veraldar dettur í hug þegar eitthvað bjátar á. Förum við hjónin þá umsvifalaust aftur á áðurnefnt sjúkrahús.
Kemur þá í ljós að ég er virkilega veik, haldin ofþornun, með blóðnasir og kalíumskort. Var ég lögð inn með það sama, mátti ég hvorki borða vott né þurrt næsta sólarhringinn. Fékk vökva í æð til að sporna við ofþornun, kalíum og send í allskonar rannsóknir. Einnig greindist ég með kampýlóbakteríu.
Þar var ég næstu þrjá sólarhringa, með vökva í æð, sýkla- og ormalyf.
Var ég spurð allskonar spurninga, út í mat sem ég hafði borðað, hvar ég hafi verið og hvort ég hafi verið að umgangast dýr, til að reyna að finna úr úr þessu.
Eftir sýnatöku og rannsóknir kom í ljós að þessi ormategund nefnist Helminthiasis (samheiti yfir allmargar tegundir). Þessi sem ég var sýkt af kemur úr ávöxtum og grænmeti, er mun algengara að börn verði fyrir þessari tilteknu sýkingu en fullorðið fólk.
Smitleiðin á þessum ormum er sú að eggin lifa í jarðvegi og berast þaðan í ávexti og grænmeti. Maðurinn er uppáhaldshýsillin og þetta berst til okkar með illa þrifnu grænmeti og ávöxtum. Sá sem er sýktur af þessum ormum getur ekki smitað aðra og var það mér mikill léttir.
Læknirinn gat alls ekki sagt til um hvað ég hefði verið lengi sýkt. Svo ómögulegt er að segja hvort ég hafi smitast hér á Íslandi, í Evrópu, á meginlandi Spánar eða á Kanarí 2019 eða jafnvel árið áður. Allt benti til þess að ég sé búin að vera töluvert lengi sýkt.
Ekki er hægt að drepa þá nema með lyfjagjöf. Eftir lyfjagjöfina á Kanarí var mér sagt af lækni að það væri búið að útrýma ormunum.
Síðan tók ég annan lyfjakúr til öryggis að læknisráði þegar heim var komið ef það hefðu orðið einhver egg eftir á lífi. Kemur þá í ljós að það eru enn ormar inni í mér og var það mér mikið áfall, en kom ekki á óvart því einkennin voru að koma til baka.
Eftir seinni lyfjagjöfina fer mér að líða betur og eru send sýni til að athuga hvort lyfjagjöfin hafi ekki náð að vinna á ormunum. Á Þorláksmessu fæ ég síðan þær gleðifréttir að búið sé að útrýma þessum ófögnuði.
Verð ég að segja að þessi óþægilega lífsreynsla kom mér algjörlega í opna skjöldu. Hvet ég alla þá sem þetta lesa að vera á varðbergi, því þetta er ekki eina ormategundin sem getur borist í okkur og enginn er óhultur.
Þegar ég uppgötvaði hvað olli þessum langvinnu veikindum hjá mér ákvað ég að googla ekkert um orma fyrr en ég væri búin að fá að vita nánar um hver þessi óboðni gestur væri. Frétti það eftir á að heima á Íslandi var heilbrigðismenntaður ættingi með krosslagða fingur og tær í von um að þetta væri ekki svínið, sem smitar fólk sem borðar illa eldað svínakjöt. Eftir að eggin þroskast í smáþörmum fara ormarnir á flakk í líkamanum og setjast að í vefjum líkt og þeir gera í svínunum.
Svo það má segja að ég hafi verið heppin, þrátt fyrir allt. Þess má geta að íslenskir læknar skima alla jafnan ekki eftir ormasýkingu enda fremur sjalgæft að þetta greinist hér á landi, en tilfellum fer fjölgandi. Þeir læknar sem komu að þessu hér heima reyndust mér virkilega vel og voru allir af vilja gerðir til að aðstoða mig.
Í dag er ég orðin allt önnur, hef náð upp góðri orku og lífsgleði. En er auðvitað smá óþekktarormur sem aldrei fyrr.
Myndir: úr einkasafni/Wikipedia