Mikil ánægja var með MEGAviku MTR á miðönninni þar sem fjallað var um tölvuleiki og rafíþróttir. Áhersla var lögð á að kynna nemendum hvernig hægt væri að nálgast tölvur og tölvuleiki á nýjan hátt og leika sér til gagns. Í hópnum voru nemendur sem hafa tölvuleiki að aðaláhugamáli en einnig nemendur sem aldrei höfðu spilað tölvuleik. Til að hrista hópinn saman var m.a. notast við hreyfileiki á borð við Mario Tennis og Just Dance fyrir Nintendo Switch þar sem hreyfing, nákvæmni, samhæfing og samkeppni sköpuðu stemmingu í hópnum.
Til að veita nemendum tækifæri til að kynnast grunnþáttum vísinda, tölvunarfræði og verkfræði var notast við leikina Kerbal Space Program og 9 Billion Humans. Markmiðið var að kenna nemendum að tækla flókin vandamál með samstarfi, forvitni og þrautseigju að leiðarljósi. Í Kerbal Space Program var hópnum skipt í smærri hópa sem hver um sig átti að koma geimflaug, sem þau höfðu byggt frá grunni, á braut um jörðu. 9 Billion Humans er skemmtileg nálgun á grunneiningum forritunar og voru nemendurnir að glíma við vandamál sem nemendur á fyrsta ári í tölvufræði eru einnig að fást við. Óhætt er að segja að þarna hafi margir komið sjálfum sér á óvart og með þrautseigju komist mun lengra en þeir töldu sjálfir að væri raunhæft í byrjun.
Hápunktur vikunnar var heimsókn í Háskólann á Akureyri þar sem Ólafur Jónsson tók á móti nemendum og kynnti tölvunarfræðinámið í HA sem er í samstarfi við HR. Eftir það fengu nemendur að kynnast ýmsum nýstárlegum tækjabúnaði, svo sem VR (Virtual Reality) tækjum og AR (Augmented Reality) gleraugum sem Ólafur talaði um að ættu mikla möguleika í framtíðinni og sýndi hann ýmislegt skondið sem þessi tækni getur boðið uppá. Vikunni lauk með frjálsum degi þar sem gleði og hlátur réði ríkjum og þurfti nánast að henda nemendum út úr síðasta tíma því þeir vildu gjarnan halda áfram að læra. Myndir
Mynd: Gísli Kristinsson
Forsíðumynd: Kristín Sigurjónsdóttir