Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur undirrituðu þann 3. júní meirihlutasáttmála í sameinuðu sveitarfélagi Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Fór athöfnin fram í Kakalaskála í Kringlumýri í Blönduhlíð.
Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Skagafirði mun endurnýja ráðningarsamning við núverandi sveitarstjóra, Sigfús Inga Sigfússon.
Flokkarnir skipta á milli sín formennsku í Byggðaráði og forseta sveitarstjórnar til tveggja ára í senn.
Á fyrsta fundi nýrrar sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi Akrahrepps og Skagafjarðar sem fyrirhugaður er 13. júní nk. verður formlega skipað í neðangreindar nefndir þar sem fulltrúar allra flokka verða kjörnir sem aðalmenn/áheyrnarfulltrúar, ásamt varamönnum. Á fundinum verður jafnframt tekin ákvörðun um nafn á sameinuðu sveitarfélag.
Fulltrúar meirihlutans í fastanefndum sveitarfélagsins verða eftirtaldir:
Byggðarráð
Einar E Einarsson
Gísli Sigurðsson
Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd
Ragnar Helgason
Sigurður Bjarni Rafnsson
Félags- og tómstundanefnd
Eyrún Sævarsdóttir
Sigurður Hauksson
Fræðslunefnd
Regína Valdimarsdóttir
Hrund Pétursdóttir
Landbúnaðarnefnd
Axel Kárason
Sigrún Helgadóttir
Skipulagsnefnd
Sigríður Magnúsdóttir
Jón Daníel Jónsson
Umhverfis- og samgöngunefnd
Hrefna Jóhannesdóttir
Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir
Veitunefnd
Guðlaugur Skúlason
Jóhannes Ríkharðsson
Sáttmáli um samstarf undirritaður
Framsóknarflokkurinn (B) og Sjálfstæðisflokkurinn (D) gera með sér svofelldan sáttmála um meirihlutasamstarf um stjórnun nýs sameinaðs sveitarfélags í Skagafirði kjörtímabilið 2022-2026.
Eftir sameiningu sveitarfélagsins Skagafjarða og Akrahrepps verður til nýtt samfélag sem hefur alla burði til að vaxa og eflast. Meginmarkmið næsta kjörtímabils verður að styrkja grunnþjónustu og byggja upp innviði í héraðinu öllu, stuðla að jákvæðri þróun, fjölgun íbúa sveitarfélagins og eflingu atvinnulífs. Það er sú stefna sem flokkarnir ætla að beita sér fyrir á næstu fjórum árum. Gott samstarf við íbúa og atvinnulíf, aðra flokka í sveitarstjórn og starfsfólk sveitarfélagsins verða höfð að leiðarljósi í starfinu.
- Áfram verði sýnt aðhald og ábyrgð í rekstri sveitarsjóðs.
- Vinna skal að auknu íbúalýðræði og gagnsæi í stjórnsýslu með íbúafundum.
- Hjá sveitarfélaginu verði viðhöfð ábyrg stjórnsýsla líkt og undanfarin ár og öll framtíðarstörf auglýst eins og verið hefur.
- Bæta stafræna þjónustu, stytta boðleiðir og einfalda þannig stjórnsýslu, t.d. með fullnaðarafgreiðslu fastanefnda sveitarfélagsins.
- Innleiða þjónustustefnu í stjórnsýslu sveitarfélagsins sem leiðir til betri þjónustu og skjótari afgreiðslu erinda með stafrænum lausnum og aukinni upplýsingamiðlun.
- Heildarúttekt gerð á rekstri sveitarfélagsins og niðurstöður nýttar við gerð fjárhagsáætlunar.
- Skoða möguleika til lækkunar á einstökum gjaldskrárliðum fasteignagjalda.
- Halda þarf áfram því metnaðarfulla starfi sem unnið er í leik- og grunnskólum Skagafjarðar.
- Samræma skipulagsdaga leik- og grunnskóla í Skagafirði.
- Útfærðar verði aðgerðir til að bæta starfsumhverfi í leikskólum Skagafjarðar.
- Tryggja börnum leikskólapláss frá 12 mánaða aldri í öllum leikskólum sveitarfélagsins.
- Gjaldskrár leik- og grunnskóla Skagafjarðar hækki ekki umfram verðlagsþróun.
- Hefja uppbyggingu skólamannvirkja fyrir leik-, grunn- og tónlistarskóla í Varmahlíð. Stefnt að því að framkvæmdum ljúki á kjörtímabilinu.
- Ljúka við hönnun og hefja endurbætur á skólahúsnæði Grunnskólans austan Vatna á Hofsósi.
- Halda áfram með endurbætur á A-álmu í Árskóla.
- Ljúka við hönnun viðbyggingar fyrir tónlistarskólann við Árskóla og hefja framkvæmdir.
- Tryggja áframhaldandi aðgang allra íbúa að öflugri félagsþjónustu og Skagafjörður verði áfram leiðandi sveitarfélag í málefnum fatlaðs fólks.
- Sveitarfélagið haldi áfram að bæta aðgengi fyrir fatlað fólk og verði aðili að verkefninu Römpum upp Ísland.
- Samstarf á milli sveitarstjórnar og öldungaráðs verði eflt á kjörtímabilinu og starfsmönnum sveitarfélagsins verði heimilt að vinna áfram eftir sjötugt í samræmi við ákvæði kjarasamninga.
- Bæta aðstöðu fyrir tómstundir og félagsstarf eldri borgara og ungmenna.
- Tryggja virkt ungmennaráð og öflugt forvarnastarf með áherslu á geðheilbrigði og stafræn samskipti.
- Móta stefnu um áframhaldandi uppbyggingu íþróttamannvirkja í Skagafirði í samvinnu við UMSS og vinna þarfagreiningu fyrir byggingu nýs íþróttahúss á Sauðárkróki. Jafnframt að hefja byggingu íþróttahúss á Hofsósi og ljúka framkvæmdum við Sundlaug Sauðárkróks.
- Frístundastyrkir verði endurskoðaðir reglulega í samráði við íþróttahreyfinguna til að tryggja að kostnaður foreldra við æfingar barna haldist áfram í lágmarki og stuðli áfram að auknum jöfnuði og fjölbreytileika íþrótta-, lista- og tómstundastarfs.
- Tryggja að öll börn í sveitarfélaginu eigi þess kost að stunda íþróttir og tómstundir. Sérstaklega verður unnið að því að ná til barna og ungmenna af erlendum uppruna.
- Skagafjörður verði aðili að verkefninu Barnvænt sveitarfélag.
- Efla ber Skagafjörð sem Heilsueflandi samfélag sem leggur áherslu á að heilsa og líðan allra íbúa sé höfð í fyrirrúmi.
- Halda áfram núverandi áætlun í hitaveituvæðingu og jafnframt styrkja lögheimili í dreifbýli hjá þeim sem ekki eiga kost á hitaveitu, t.d. til kaupa á varmadælu.
- Unnið verði áfram að ljósleiðaravæðingu í þéttbýliskjörnum Skagafjarðar gegnum verkefnið Ísland fulltengt.
- Tryggja þarf áfram nægt framboð íbúðalóða í öllum þéttbýliskjörnum Skagafjarðar.
- Stuðla að uppbyggingu hagkvæms húsnæðis, hvort sem er til leigu eða eignar, sem falla m.a. innan ramma hlutdeildarlána eða almenna leiguíbúðakerfisins.
- Stuðla að uppbyggingu húsnæðis fyrir eldri borgara í Skagafirði.
- Vinna að uppbyggingu gamla bæjarins á Sauðárkróki og skipuleggja hann heildstætt.
- Unnið verði að heildarskipulagi opinna svæða í þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins með tilliti til leikvalla og útivistarsvæða.
- Unnið verði eftir umhverfis- og loftslagsstefnu Skagafjarðar og mótuð metnaðarfull markmið um kolefnishlutleysi héraðsins.
- Halda áfram uppsetningu á sorpmóttökustöðvum í Skagafirði.
- Unnið verði áfram að fegrun þéttbýliskjarna og dreifbýlis sveitarfélagsins.
- Bæta aðkomu þéttbýlisstaða í Skagafirði samkvæmt Aðalskipulagi og í samráði við Vegagerðina.
- Áfram unnið að uppbyggingu hafnarmannvirkja í Skagafirði.
- Styrkja áfram innviði svo héraðið þyki aðlaðandi valkostur til búsetu fyrir einstaklinga og hagkvæmur kostur fyrir starfsemi fyrirtækja og fjárfesta sem vilja byggja upp atvinnustarfsemi.
- Áfram skal unnið að áformum um uppbyggingu mannaflsfrekrar starfsemi í Skagafirði og grænna iðngarða.Stuðlað verði að enn frekari nýtingu auðlinda, s.s. heits vatns, til atvinnusköpunar vítt og breytt um héraðið.
- Stuðla að fjölgun starfa óháð staðsetningu til að efla atvinnutækifæri í Skagafirði.
- Styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í Skagafirði.
- Ljúka byggingu menningarhúss á Sauðárkróki á kjörtímabilinu.
- Tryggja þarf góðar samgöngur í Skagafirði og finna Alexandersflugvelli aukið eða nýtt hlutverk.
- Styðja áfram við öflugt og skapandi menningar- og listastarf svo að í boði verði fjölbreytt úrval viðburða fyrir alla aldurshópa sem gefi ólíkum einstaklingum tækifæri til samveru, vaxtar og þroska.
- Efla Skagafjörð sem áfangastað ferðamanna á heilsársgrundvelli.
- Áfram verði unnið að uppbyggingu og viðhaldi reiðvega og eflingu hestamennsku í Skagafirði, m.a. í samvinnu við hestamannafélagið Skagfirðing.
- Áfram verði stutt við öfluga starfsemi björgunarsveita í Skagafirði.
- Styrkja innviði og þjónustu í dreifbýli til að auka og viðhalda störfum í landbúnaði og tengdum greinum.
- Stuðla áfram að nýsköpun og þróun á landbúnaðartengdum afurðum og byggja á sérstöðu Skagafjarðar
- Sveitarfélagið hafi það að markmiði að matvæli sem framleidd eru í Skagafirði séu notuð í stofnunum sveitarfélagsins
- Ráðast í samstarfi við ríkisvaldið í uppbyggingu hjúkrunarrýma og stækkun dagdvalar á Sauðárkróki.
- Vinna áfram í samráði við aðildarsveitarfélög, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og ríkisvaldið að uppbyggingu á fjölnota kennslurýmum við verknámshús skólans.
- Tryggja þarf áframhaldandi uppbyggingu og öflugt starf Háskólans á Hólum í samvinnu við ríkisvaldið og með tengingu við atvinnulífið.
- Afhendingaröryggi raforku og orkuframboð til atvinnuuppbyggingar og orkuskipta verði tryggt.
Tryggja þarf öruggt farsímasamband í dreifbýli og þéttbýli í Skagafirði.
Mynd/skagafjordur.is