Þegar áföll ríða yfir eykst þörfin fyrir réttar og áreiðanlegar upplýsingar. Á sama tíma og stjórnvöld vinna að því að draga úr afleiðingum faraldursins og veita almenningi traustar upplýsingar, dreifast rangfærslur, sem hafa á sér yfirbragð frétta, hratt manna á meðal, sérstaklega á samfélagsmiðlum. Hér fyrir neðan eru nokkur góð ráð svo að þú getir greint slíkar rangfærslur frá staðreyndum og forðast að deila falsfréttum.

Stoppa, hugsa, athuga. Ekki deila greinum eða upplýsingum gagnrýnislaust

Við getum öll látið blekkjast á netinu og trúað rangfærslum og misvísandi upplýsingum. Árvekniátakinu Stoppa, hugsa, athuga er ætlað að stuðla að því að fleiri komi auga á slíkar upplýsingar. Því miður er auðvelt að láta margskonar svindl og rangar upplýsingar virðast trúverðugar á netinu. Einnig er hægt að misnota traust fólks til þekktra einstaklinga til að auka tiltrú þess á ýmiskonar netsvindli. Skilaboð fjölmiðlanefndar eru einföld: Stoppaðu, hugsaðu þig um og athugaðu fleiri heimildir þegar þú leitar upplýsinga.

Ef þú ert ekki viss um það hvort fréttin sem þú ert að lesa sé áreiðanleg geturðu meðal annars prófað að slá fyrirsögnina eða aðrar lykilupplýsingar inn í leitarglugga og kannað hvort þú finnir umfjöllun um málið í öðrum fréttamiðlum. Ef ekkert kemur upp í leitarniðurstöðum, þótt efni fréttarinnar sé sláandi, hefurðu góða ástæðu til að efast. Kannski finnurðu meira að segja frétt þar sem efni falsfréttarinnar er hrakið. Það er einmitt eitt af hlutverkum ritstýrðra, faglegra fjölmiðla; að sía út rangar og misvísandi upplýsingar og áróður og stunda vandaða rannsóknarblaðamennsku, svo að almenningur fái réttar og áreiðanlegar upplýsingar og geti myndað sér skoðun út frá þeim.

Sjá nánar á vef Fjölmiðlanefndar