Þann 25. júní 2020 var kveðinn upp úrskurður í  úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í deilu Olíudreifingar hf. við Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra vegna áminningar sem Heilbrigðisnefndin veitti félaginu þann 21. janúar sl. 

Áminningin var veitt Olíudreifingu í því skyni að knýja félagið til þess að veita upplýsingar um magn olíu sem flutt var annars vegar um Öxnadalsheiði í september 2019 til Skagafjarðar og Húnavatnssýslna og  hins vegar um magn olíu sem flutt var til Fjallabyggðar frá Akureyri, í sama mánuði. Olíudreifing hafði áður hafnað að veita umbeðnar upplýsingar.   

Niðurstaða úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál var að Heilbrigðisnefndin hefði ekki heimildir til þess að krefjast upplýsinganna og því síður heimild til að áminna Olíudreifingu í kjölfarið, þar sem dreifing olíu var ekki starfsleyfisskyld með skýrum hætti, þó svo starfsemin væri eftirlitsskyld sbr. 5. gr. relgugerðar 884/2017.

Í umfjöllun úrskurðarnefndarinnar um heimildir heilbrigðiseftirlitsins kemur fram að þær séu einkum fólgnar í að fræða, leiðbeina og veita upplýsingar og má ráða að nefndin telji þær skyldur sem reglugerðin leggur á herðar eftirlitsaðila, vart til eiginlegs opinbers eftirlits.


Mynd/Olíudreifing