Valkvæðar liðskiptaaðgerðir á mjöðmum og hnjám voru samtals 2.138 árið 2023 og hafa aldrei verið fleiri. Aðgerðum fjölgaði um rúmlega 800 milli ára og nemur aukningin tæpum 60%. Miðgildi biðtíma eftir liðskiptaaðgerð fór úr 9,5 mánuðum í 4,6 mánuði á Landspítala frá byrjun til loka árs 2023. 

Lýðheilsutengdar aðgerðir aldrei verið fleiri

Markvisst hefur verið unnið að því að fjölga lýðheilsutengdum aðgerðum í þeim tilgangi að tryggja tímanlegt aðgengi að þjónustunni. Lýðheilsutengdar aðgerðir eru ekki hluti af inngripum í fjölveikindi eða í bráðaástandi, heldur er um að ræða einskiptisaðgerð sem getur snúið viðkomandi einstaklingi aftur til heilsu og í samfélagslega virkni.

Samhliða auknum afköstum og auknu aðgengi að þjónustunni innan íslenska heilbrigðiskerfisins hefur þeim sem leitað hafa út fyrir landsteinana í liðskiptaaðgerð, á grundvelli biðtíma ákvæðis EES-samnings um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, fækkað um rúmlega helming.

„Markmiðið hefur verið að nýta betur afkastagetu heilbrigðiskerfisins, stytta bið sjúklinga eftir þessari mikilvægu þjónustu og jafna aðgengi að henni óháð efnahag. Nú sjáum við að þetta hefur tekist vel og biðlistarnir hafa styst. Við stefnum að því að enginn ætti að þurfa að leita til útlanda eftir aðgerð“ segir Willum Þór. Hann bendir jafnframt á að afköst við liðskiptaaðgerðir hafa aukist hjá flestöllum þjónustuveitendum sem framkvæma slíkar aðgerðir hér á landi. 

Skilvirk þjónustukaup og þjónustutengd fjármögnun

Á undanförnum tveimur árum hefur framleiðslutengd fjármögnun verið innleidd í auknum mæli í sjúkrahúsþjónustu hér á landi. Sem hluti af aðgerðum stjórnvalda til að fjölga liðskiptaaðgerðum og stytta bið eftir þjónustunni voru settir upp framleiðslutengdir hvatar fyrir liðskiptaaðgerðir á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Greitt er sérstaklega fyrir hverja framkvæmda aðgerð umfram fjármagnaða áætlun stofnununarinnar. Slík fjármögnun eykur skilvirkni og framleiðni ásamt því að tryggja að fjárveitingar taki mið af umfangi þjónustunnar og raunkostnaði við veitingu hennar.

Í bráðabirgðauppgjöri Landspítala fyrir árið 2023 kemur fram að skurðagerðum á spítalanum fjölgaði um 8% frá árinu 2022.

Í byrjun síðasta árs fól Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) að leita eftir samningum við þjónustuveitendur um framkvæmd liðskiptaaðgerða. Í mars 2023 voru undirritaðir samningar um framkvæmd 700 liðskiptaaðgerða milli SÍ, Klíníkurinnar í Ármúla og Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ. Sjúklingar sem fara í aðgerð á grundvelli þessa samnings njóta greiðsluþátttöku hins opinbera í samræmi við almennar reglur.

Mynd/aðsend