Mexíkóskt kjúklingalasagna (uppskrift fyrir 6-8)

  • 5-6 kjúklingabringur (þetta er ekki svo nákvæmt, einn poki af frosnum bringum er gott)
  • ½ laukur
  • 1 stór eða 2 litlar rauðar paprikur
  • 1 bréf burritos kryddmix
  • 2 krukkur af salsa sósu (medium eða sterkar, jafnvel ein af hvoru)
  • ½ líter matreiðslurjómi
  • smá klípa af rjómaosti (má sleppa)
  • tortillur (1 pakki af minni gerðinni)
  • Mozzarella ostur

Skerið laukinn og paprikuna fínt og kjúklingabringurnar í litla bita. Hitið olíu á pönnu við miðlungsháan hita (ég nota stillingu 7 af 9). Steikið laukinn og paprikuna þar til byrjar að mýkjast, bætið þá kjúklingnum á pönnuna og steikið áfram. Hellið kryddinu yfir og steikið í smá stund til viðbótar. Hellið salsasósum og matreiðslurjóma yfir og látið suðuna koma upp. Hrærið rjómaosti saman við sé hann notaður. Látið sjóða saman í nokkrar mínútur.

Setjið tortillaköku í botn á eldföstu formi (það gæti þurft að klippa þær til þannig að þær passi betur). Setjið kjúklingasósuna yfir og síðan á víxl tortillakökur og kjúklingasósu. Endið á kjúklingasósunni. Stráið mozzarella osti yfir (mjög gott að nota ferskan) og inn í 180° heitan ofn þar til osturinn er bráðnaður og kominn með fallegan lit.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit