Á fundi framkvæmda-, hafna- og veitunefndar Fjallabyggðar þann 22. september var fjallað um versnandi rekstrarstöðu hafnarinnar. Tekjur hafa farið minnkandi á síðustu árum á sama tíma og kostnaður hefur aukist. Nú liggur fyrir að enn frekari samdráttur er fram undan, meðal annars vegna fækkunar komu skemmtiferðaskipa.
Í fundargerð kemur fram að rekstrarafkoma hafnarinnar árið 2024 hafi aðeins numið um 20 prósentum af því sem hún var árið 2019. Samkvæmt áætlunum gæti tekjusamdráttur haldið áfram þar sem búist er við að komum skemmtiferðaskipa fækki um 65–70 prósent á milli áranna 2025 og 2026.
Á fundinum var einnig lögð fram samantekt Sigurðar J. Ólafssonar, framkvæmdastjóra Cruise Iceland. Þar kemur fram að bókunum skemmtiferðaskipa í íslenskum höfnum hafi fækkað verulega. Árið 2023 voru bókanir alls 1.209, á þessu ári verða þær 1.001 en aðeins 764 eru skráðar fyrir árið 2027. Samdrátturinn er mestur í minni höfnum á landsbyggðinni, þar á meðal í Fjallabyggð.
Sjá samantekt: HÉR
Á Siglufirði komu 27 skemmtiferðaskip árið 2023 og eru 32 í ár. Á næsta ári hafa einungis verið skráðar 10 komur og aðeins 8 skipakomur árið 2027. Nemur það samdrætti upp á nær 69 prósent á milli áranna 2024 og 2025 og 75 prósent til ársins 2027.
Framkvæmda-, hafna- og veitunefnd Fjallabyggðar lýsti miklum áhyggjum af þessari stöðu og fól hafnarstjóra að leita leiða til að mæta verulegri tekjulækkun hafnarinnar á komandi árum.