Þessi pistill snýst um hugsanir mínar og margra annarra um ýmislegt sem hefur farið miður í stuttri sameiningarsögu Fjallabyggðar.

En SUMT hefur hreinlega bara gleymst og týnst og sagan er ekki endilega alltaf öll sameiginleg.

Og sú staðreynd sést vel suður á Hólssvæðinu og í týndri sögu Knattspyrnufélags Siglufjarðar (KS.)

Og þessar dagsfersku ljósmyndir tala sínu eigin máli.

Sumt má maður varla segja uppátt lengur án þess að eiga það á hættu að ráðist verði á mann með fúkyrðum og lélegum rökum sem eiga að útskýra og allt og ekkert.

En með þessum orðum mínum og ljósmyndum er ég ekki að ráðast að einum eða neinum eða reyna að klína ábyrgð á neinn sérstakan heldur miklu meira að segja:

Halló…. Ekkert verður betra með því að EKKI ræða þessi málefni.

Það getur vel verið að orð mín hljómi eins og ég sé að þykjast vera sjálfútnefndur Dr. Phil Fjallabyggðar úr fjarlægð en ég er nú reyndar „algjörlega hlutlaus“ því ég er fæddur og uppalinn í Héðinsfirði.
(Já, ég veit ég hef reynt að ljúga því að ykkur áður.)

En Héðinsfjörður er:
Mitt á milli bæjarhverfa í minni heittelskuðu fögru Fjallabyggð.

Og kannski snýst kjarni málsins einmitt um þá staðreynd að há fjöll og heill eyðifjörður skilur að austur- og vesturbæ og þrátt fyrir göng og þetta sameiningar þriggja fjarða fóstbræðralag þá hefur hver fyrir sig sína eigin sögu og hver og einn verður að taka ábyrgð á að varðveita sína eigin sögu.

En það hafa allir sömu ábyrgð í skapa nýja sameiginlega fallega og sögulega framtíð undir sameinuðum bæjarmerkisfána.

Vonandi án þess að þurfa að vinna neitt eða tapa neinu.

Fjallabygg sjálf sem ein heild er bara táningur í dag sem virðist ekki vita hvað hún vill eða vill ekki.

Það eru ekki fjöll og firðir á milli hverfa í Reykjavík og bæði börn og eldri borgarar geta gengið eða hjólað í þá þjónustu sem þau vilja taka þátt í þegar þeim dettur það í hug á þess að þurfa að panta sér loftmeingandi keyrslu í tíma og ótíma og það er óþolandi óraunhæft að sífellt bera saman þjónustu aðstæður á suðvestur horninu við restina af dreifbýli Íslands eða hefða að þarna fyrir sunna sé samansöfnuð þjónusta fyrir alla landsmenn.

En vegna fjarlægðar verður tvennt af mörgu að vera til og hreinlega að fá að kosta meira af þeirri ástæðu.
Annars er varla hægt að tala um jafna og réttláta þjónustu fyrir alla bæjarbúa.

En sumt getur farið út í öfga og skapað “tvennt af öllu eða eitt af engu” sem gagnast engum.

Það hefur gerst of oft í samsláttar sögu sveitarfélaga að þrátt fyrir að flestir íbúar sjái fjárhagslega hagsmuni í þessu þá læðist aftan að þeim seinna að þessi hagræðing kemur að mestu leyti með því að leggja eitt niður og byggja upp annað sem ekki er nálægt þeim og þá finnst þeim ávinningurinn vera enginn og óánægjan flýtur uppá yfirborðið eins og eitruð olía.

Það verður að koma meiri ásættanleiki og virðing á milli bæjarhlutana í Fjallabyggð um að allir séu sammála um að markmiðið sé lifandi góð byggð í báðum hverfum.   

Nöldursrök eins og t.d. þessi sem oft er slengt í andlitið á manni eru óþolandi og óraunhæf og skapa oft sundrung og óréttlætis tilfinningu.

„ef við gerum eitt HÉR þá verðum við fórna einhverju öðru ÞAR…

því við erum svo fá og við höfum bara hreinlega ekki efni á þessu öllu.“

Þetta er bara helvítis lygi og kjaftæði því árlega verður dágóður rekstrarafgangur í okkar sameiginlega Fjallbyggðarrekstri sem sumir þó vilja reka sem fyrirtæki.

En bæjarfélög eru ekki fyrirtæki og allur rekstrargróði á að fara beint í vasa hluthafana sem eru ALLIR og ekki bara sumir sem búa í Fjallabyggð.

Að mínu mati snýst þetta allt saman miklu meira um hugarfar og vilja til að gera stóra „nútímalega“ sameiginlega úttekt með langtíma markmiðum þar sem hin mannlega menningar þörf lífsins í Fjallabyggð fær miklu meira pláss og virðingu sem og stærri pólitískan status.

Hér má gjarnan hafa Norðmenn sér til fyrirmyndar sem í sínu ríkisskattakerfi hafa viðurkennt þetta vandamál og leyfa bæjarfélögum að halda eftir meira af ríkissköttum íbúa þar sem vandamálið með langar vegalengdir í allskyns þjónustu er stór orsök til að fólk flytur burt.

Ábyrgðin og sagan sem týndist

Mér og mörgum öðrum sem fæddumst óvart fyrir langa löngu Siglufjarðarmegin í Fjallabyggð blöskrar ástandið suður á Hólssvæðinu, eins og þær ljósmyndir sem fylgja með þessum pistli sýna vel.

Mér er sagt að gras þurfi bæði áburð og vatn! En ef vökvunargræjurnar eru bara í notkun inná Ólafsfirði þá nær ekki slangan ekki alla leið í Siglufjörð.

Ég skrifaði grein um þetta svæði fyrir nokkrum árum en nú er ástandið verra og þar fyrir utan er nú Pæjumótið dautt og grafið (blessuð sé minning hennar og virðingunni fyrir áhuga og vilja hennar til að fá að spila fótbolta eins og allir aðrir)
… og svo er gamli gólfvöllurinn komin í „hvíld“ líka.

En kannski birtist þarna Frisbee golfvöllur í staðinn en gamli Frístundafræðingurinn í mér segir að hann ætti kannski að hluta til að ná inn í Skógræktina. Bara hugmynd…

Sjá grein á siglo.is frá 2014:
Hólsvöllur ónýtur eða ónýttur ?

Þegar ég og margir aðrir sjáum þetta skilti sem er þarna ennþá fáum við tár í augun.

Í lok þeirrar greinar læt ég efrifarandi orð vaða út í loftið:

„… En ég er líka gamall KS-ingur, man þá tíð að ég og margir aðrir vorum þarna mánuðum saman með haka, skóflur og hrífur.
Unnum hörðum höndum við að skapa fyrsta grasvöll bæjarins.

Ég leyfi mér að spyrja:

Hver hefur umsjón með þessu svæði ?
Er eingin starfsemi á svæðinu ?
Á ekki að fara fram Pæjumót þarna eftir ca. mánuð ?
Af hverju er svæðið í þessari niðurnýðslu ?”

“Reiður, gamall og feitur KS-ingur, grrr !”
NB 

Og ég spyr enn og aftur opinberlega sömu spurninga ?

En Bæjaryfirvöld og nefndarfulltúrar eru svo oft of fljótir að svara fyrir sig og ýta frá sér ábyrgð með orðum eins og:

„… þetta hefur ekkert með okkar ábyrgð eða pólitík að gera…. „

En þegar bæjarfélagið styrkir eitthvað eða gerir umsjónar og rekstrarsamninga við t.d. Knattspyrnufélag Fjallabyggðar (KF) þá kemur sjálfkrafa pólitísks ábyrgð inn í málið.

HERRA BÆJARSTJÓRI! (Opinber fyrirspurn frá greinarhöfundi)

Geta Fjallabyggðarbúar fengið að sjá þennan rekstrarsamning milli Fjallabyggðar og KF og hvaða skyldur þeir eiga að uppfylla ?

Og hvað kostar það bæjarfélagið í peningum að KF geri ekki neitt þarna árlega ?

Hvað er samlagður rekstraafgangur Fjallabyggðar síðustu 5 ára stór í milljónum talið ?

Og að lokum.

Hvar er okkar sameiginlega Siglfirska „týnda“  KS-inga saga ?

Þegar KS og Leiftur urðu eitt félag með brot úr báðum félagsmerkjunum í fánanum til minningar um frækinn feril og sögu beggja félaga og sem sameiningartákn fyrir okkur Fjallabyggðarbúa nær og fjær þá fylgdi með ábyrgð um að varðveita þessar sögur.

En hvar er hún geymd ?

Hvar eru allar gamlar ljósmyndir, verðlaunagripir, gamlir búningar og allt sem ég man eftir úr t.d. KS-húsinu við Suðurgötuna.

Kannski er það svo að gamlir Leifturs vinir mínir og leikfélagar þurfi að spyrja sig sömu spurninga ? … Hver veit.

Mér og mörgum öðrum langar til að sjá þessar minningar næst þegar við komum heim í Fjallabyggð.

Af hverju ?

Jú, þessi saga er okkur mikilvæg og kær og stór hluti af því sem við erum í dag.

Og ef þú kannt ekki þína eigin sögu og veist ekki hvaðan þú kemur þá veistu heldur ekki hvert þú ert að fara í framtíðinni.

Lifið heil.

Kveðja
Nonni Björgvins