Viðbragðsaðilar unnu í dag að því að rífa þak af verksmiðju Primex á Siglufirði eftir mikinn eld sem kviknaði í húsinu í gærkvöldi. Hreinsun á þakplötum og þaki norðan megin hússins er þegar lokið.
Talsvert rok hefur verið á svæðinu, allt að 18 metrar á sekúndu í hviðum, og samkvæmt Veðurstofu er ekkert lát á vindi næstu daga. Eldurinn virtist í fyrstu bundinn við efstu hæð hússins, en ljóst er að skemmdir eru víðar í húsinu.
Skemmdir eru bæði af völdum elds og vatns. Auk slökkviliðs og lögreglu vinnur starfsfólk Primex nú með tryggingafélagi fyrirtækisins að mati á umfangi tjónsins.
Primex er líftæknifyrirtæki með 24 starfsmenn, þar af níu í verksmiðjunni á Siglufirði, þar sem unnið er kítósan úr rækjuskel sem notað er meðal annars í lækningatæki og sárameðhöndlun.
Sveinn Snævar Þorsteinsson tók myndirnar á vettvangi brunans í dag.






