Vegagerðin og lögreglan vakti athygli á miklum tjörublæðingum á vegarkaflanum úr Borgarfirði og norður í Skagafjörð í gærkvöldi.
Við þessar aðstæður sest tjaran í munstur hjólbarða bifreiða sem veldur því að aksturshæfni þeirra skerðist, og getur tjaran slest á bifreiðar sem að á móti koma.
Tilkynnt var um tjón á bifreiðum í gær vegna þessa sem og eitt umferðaróhapp sem rekja má til þessara óvenjulegu aðstæðna.
Ökumenn eru því beðnir um að aka varlega, fylgjast með hjólbörðum bifreiða sinna og jafnframt sýna annarri umferð tillitssemi.
Meðfylgjandi myndir tók Bjarki Reynisson þegar hann kom norður á Akureyri í gær, hann varð að stoppa fjórum sinnum til að hreinsa tjöru af dekkjunum.