Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað fulltrúa í Vísinda- og nýsköpunarráð til næstu fjögurra ára í samræmi við lög um Vísinda- og nýsköpunarráð nr. 137/2022. Samkvæmt 5. gr. laganna skipar ráðherra níu fulltrúa í ráðið á grundvelli tillagna sérstakrar tilnefningarnefndar, þar af einn sem formann ráðsins. Varamenn eru tilnefndir og skipaðir með sama hætti.

Lög um Vísinda- og nýsköpunarráð tóku gildi 1. apríl sl.  Markmið laganna er að efla stefnumótun og samhæfingu á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar hér á landi svo að styrkja megi íslenskt þekkingarsamfélag og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Hlutverk Vísinda- og nýsköpunarráðs er að:

  • Veita ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun og ráðherra sem fer með málefni vísinda- og nýsköpunar ráðgjöf um stefnumótun á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar, sérstaklega gagnvart mikilvægum samfélagslegum áskorunum.
  • Veita ráðherranefnd endurgjöf með því að fjalla um framtíðarsýn og stefnu stjórnvalda og setja fram rökstuddar tillögur að umbótum með tilvísun í alþjóðlega þróun á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar.
  • Stuðla að upplýstri og gagnrýnni umræðu um vísindi, tækni og nýsköpun, stöðu greinanna og mikilvægi fyrir íslenskt samfélag með skýrslum og opnum fundum.
  • Birta árlega stöðuskýrslu um vísindi, tækniþróun og nýsköpun á Íslandi.
  • Vinna með sérfræðingum á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar innan ráðuneyta að betri þekkingu á stöðu vísinda-, tækniþróunar- og nýsköpunarmála á Íslandi, reglubundnum kynningum og mælikvörðum á sviðinu.

Formaður Vísinda- og nýsköpunarráðs er Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

Skipun ráðsins er sem hér segir:

Aðalmenn

Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, formaður.
Elín Díanna Gunnarsdóttir, dósent í sálfræði við Háskólann á Akureyri.
Finnur Ulf Dellsén, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. 
Hildur Einarsdóttir, framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar hjá Össuri. 
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
Kolbrún Hrafnkelsdóttir, stofnandi Florealis.
Lotta María Ellingsen, dósent í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands.
Paul Nurse, forstöðumaður Crick Institute, Bretlandi.
Robert Jan Smits, formaður stjórnar Eindhoven háskóla, Hollandi. 

Varamenn

Ásdís Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Uppbyggingarsjóði EFTA, Brussel. 
Ásthildur Margrét Otharsdóttir, meðeigandi og fjárfestingarstjóri hjá Frumtaki.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, prófessor í myndlist við Listaháskóla Íslands. 
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. 
Karl Ægir Karlsson, prófessor í líffræði við Háskólann í Reykjavík. 
Kristinn Rúnar Þórisson, prófessor í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík.
Kormákur Hlini Hermannsson, yfirverkfræðingur og meðstofnandi Nox Medical. 
Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. 
Örn Almarsson, Stofnandi Axelyf.

Mynd/Haraldur Jónasson / Hari