Sunnudaginn 18. ágúst verður reistur skjöldur þar sem áður var sæti Okjökuls, en hópur vísindamanna og kvikmyndagerðarmanna stendur að viðburðinum til að benda á áhrif loftslagsbreytinga.

Ok var afskráður sem jökull haustið 2014 þegar ljóst var jökullinn var hættur að skríða undan eigin þunga. Í tilefni viðburðarins á sunnudaginn, sem kallaður er „Minningarstund um Ok“, hefur Oddur Sigurðsson jarðfræðingur skrifað grein um Ok. „Það mætti kalla þetta minningargrein um jökulinn, því hann er ekki jökull lengur nema í minningum okkar.

Ok var einn af þeim rúmlega 300 jöklum landsins sem við skráðum á jöklakort um aldamótin síðustu. Þegar jöklarnir voru kortlagðir að nýju árið 2017 töldust 56 þeirra ekki lengur til jökla. Þetta er bein afleiðing hlýnunar jarðar vegna loftslagsbreytinga, sem því miður sér ekki fyrir endann á sem stendur“, segir Oddur.

Lesa má grein Odds Sigurðssonar um Ok á síðu Veðurstofu Íslands: Hér

Forsíðumynd: Okjökul 15. september 2003, horft í suðvestur. Rendur um allan jökulinn sýna að ekki er neitt eftir af ákomusvæði jökulsins og hann því á hröðu undanhaldi. Rákir framan við jökuljaðarinn gefa til kynna hve langt jökullinn náði er hann var hvað stærstur. Að baki gígnum í fjallinu má meðal annars sjá Fanntófell. (Ljósmynd: Oddur Sigurðsson)