Byggðarráð Húnaþings vestra mótmælir harðlega lokun útibús VÍS í Húnaþingi vestra sem boðuð hefur verið. Aðgerðir sem þessar bitna verulega á íbúum landsbyggðarinnar sem þurfa sífellt að sækja þjónustu um lengri veg.  Með lokun útibúsins er engin þjónusta frá VÍS aðgengileg á atvinnusvæði íbúa Húnaþings vestra.

Ljósleiðaravæðingu landsins er meðal annars ætlað að gera fólki kleift að stunda vinnu sína hvar á landi sem er. Þrátt fyrir þessa mikilvægu tæknibyltingu virðist gæta þess misskilnings hjá stjórnendum stórfyrirtækja að hennar helsta hlutverk sé að safna sem flestu starfsfólki undir sama þak og þá helst á dýrasta stað í höfuðborg landsins, frekar en að gera fólki allstaðar að af landinu kleift að sinna viðkomandi störfum.

Erfitt er að sjá að þessi þróun sé viðskiptavinum í vil, enda hefur hvergi komið fram að þessi þróun verði til að lækka iðgjöld þeirra. Byggðarráð hvetur stjórn VÍS til að endurskoða þessa ákvörðun með það að markmiði að viðhalda góðri þjónustu við landsbyggðirnar.

Sveitarstjóra falið að segja upp samningum við VÍS fyrir 1. júlí 2019 og leita tilboða í tryggingar hjá þeim tryggingarfélögum sem treysta sér til að þjónusta samfélagið með viðunandi hætti. 

 

Mynd: Birgir Karlsson