Menntaskólinn á Tröllaskaga og Dósaverksmiðjan – Tungumálaskólinn ehf. hljóta Evrópsku nýsköpunarverðlaunin í kennslu 2025 fyrir framúrskarandi verkefni í kennslu og tungumálanámi.

Menntaskólinn á Tröllaskaga hlýtur Evrópsku nýsköpunarverðlaunin í kennslu (European Innovative Teaching Award – EITA) árið 2025 fyrir aðildarverkefni sitt The Sustainable Development Goals in All Aspects of School Life – A Democratic Society in Practice. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti um verðlaunahafana í gær.
Dósaverksmiðjan – Tungumálaskólinn ehf. hlýtur jafnframt Evrópumerkið (European Language Label) fyrir verkefnið Læsi er lykill að lýðræði – Menntun án aðgreiningar. Evrópumerkið er veitt verkefnum sem þykja skara fram úr í tungumálanámi og kennslu.
Bæði verðlaunin eru hluti af árlegri viðurkenningu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á verkefnum sem skara fram úr á sviði kennslu og náms. Í ár hljóta alls 117 kennarar og skólar í meira en 30 löndum innan og utan Evrópusambandsins viðurkenningu. Með þeim leitast framkvæmdastjórnin við að heiðra kennara sem nýta nýstárlegar, gagnvirkar og aðgengilegar aðferðir til að ryðja brautina fyrir bjartari framtíð komandi kynslóða.
Þema viðurkenninganna endurspeglar árlega áherslu framkvæmdastjórnarinnar. Að þessu sinni var þemað „Virk borgaravitund“. Að mati óháðrar dómnefndar hafa báðar íslensku stofnanirnar náð sérstaklega góðum árangri á því sviði; Menntaskólinn á Tröllaskaga með því að virkja starfsfólk og nemendur í Erasmus+ verkefnum og Dósaverksmiðjan – Tungumálaskólinn ehf. á sviði fullorðinsfræðslu og tungumálakennslu.
Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í veislusalnum á Nauthóli, miðvikudaginn 15. október nk., kl. 16:00 þar sem fulltrúar beggja verkefna munu veita verðlaununum móttöku. Jafnframt verður verkefni Menntaskólans á Tröllaskaga fulltrúi Íslands á sérstakri verðlaunahátíð sem haldin verður í Brussel dagana 8.-9. desember. Lesa má nánar um það verkefni hér: The Sustainable Development Goals in All Aspects of School Life – A Democratic Society in Practice – European Commission