„Þú hefur líka rödd“ er titill samstarfsverkefnis MTR og Erasmus+ verkefnisins sem hófst núna um mánaðamótin. Þátttakendur eru frá Grikklandi, Lettlandi og Tékklandi auk Íslands. Markmið verkefnisins er að þjálfa nemendur í virkri þátttöku og kenna þeim að axla ábyrgð í lýðræðisþjóðfélagi. Á þeirra herðum mun hvíla að efla og þróa lýðræði og menningu í evrópskum samfélögum.

Verkefnið er í fjórum hlutum og verður unnið á tveimur árum. Í fyrsta hluta verður fjallað um borgaralega ábyrgð, starf sjálfboðaliða og kosningar. Í öðrum hluta verður fjallað um jafnrétti í fjölmenningarlegu samfélagi. Tjáningarfrelsi er þemað í þriðja hluta. Þar lesa nemendur bækur sem hafa verið bannaðar og kynnast falsfréttum, áróðri og spuna í fjölmiðlum. Í síðasta hlutanum verður svo fjallað um lýðræðismenningu, mótmælaaðgerðir og borgaralega óhlýðni.

Lára Stefánsdóttir, skólameistari og Ida Semey verkefnisstjóri erlendra samstarfsverkefna sátu í gær fund í Reykjavík þar sem þar sem afhentir voru samningar um verkefni til þeirra skóla sem hlutu Erasums+ styrki ásamt fræðslu til styrkhafa um vinnu við verkefnið.

Verkefnisstyrkurinn nemur í heild um átján milljónum króna en þar af verður um fimm milljónum varið til að kosta þátttöku MTR. Sérstakir umsjónarmenn skólans með verkefninu verða Karólína Baldvinsdóttir og Sigríður Ásta Hauksdóttir.

 

Forsíðumynd af Margréti og Idu Semey. Mynd/LS