Á vefsíðu Menntaskólans á Tröllaskaga, MTR, kemur fram að hópur nemenda hefur í miðannarvikunni æft sig í að skrifa fjölbreytta texta frá eigin brjósti og líka í að nýta texta annarra og ýmislegt í umhverfinu til að fá nýjar hugmyndir.

Leiðbeinendur í áfanganum eru Anton Helgi Jónsson og Þórarinn Hannesson sem báðir hafa fjölþætta reynslu af að skrifa og vinna með texta og miðla þekkingu sinni.

Anton Helgi jós úr viskubrunni sínum í ljóðagerð fyrstu tvo daga vikunnar og lét nemendum í té ýmis verkfæri til að skapa ný ljóð og texta og glæða ritsmíðar sínar lífi. Við þessa vinnu varð til fjöldi ljóða sem hengd voru upp á vegg öðrum til yndisauka. Þórarinn sá svo um það sem eftir lifði vikunnar og fór með nemendur í ýmiskonar orðaleikfimi þar sem til urðu textar af ýmsu tagi. Kíkt var í heimsókn til Siglufjarðar einn dag til að sækja andagift og leitað fanga á Ljóðasetrinu, Síldarminjasafninu, bókasafninu og í Aðalbakaríi. Í þessari ferð fengust nemendur m.a. við að púsla saman þekktum vísum og búa til ný ljóð, æfðu sig í persónusköpun, að skrifa í anda þjóðsagna og að skrifa um dag í lífi síldarstúlku eða sjómanns í viðeigandi umhverfi.

Nemendur láta vel af náminu í þessum áfanga, finnst hann fjölbreyttur og bara nokkuð skemmtilegur og búast við að það sem þeir hafa lært muni nýtast þeim við ritsmíðar í hinum ýmsu fögum í skólanum.

Myndir.