Eldhúshópur HSN

Hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur síðast liðin ár farið fram mikil og góð vinna Eldhúshóps HSN við að skapa sinn sameiginlega 7-vikna viðmiðsmatseðil fyrir öll fjögur sjúkrahúseldhúsin.

Nú stendur yfir vinna við innsetningu uppskrifta og matseðla inn í rafrænt kerfi, sem býður m.a. upp á að eldhúsin samræmi hráefnisnotkun málsverða og að málsverðir séu næringarútreiknaðir og þannig hægt að samræma almenna sjúkrahúsfæðið við ráðleggingar Embætti Landlæknis um mataræði og næringarefni.


Matseðlarnir verða framvegis aðgengilegir hér: 
https://www.hsn.is/is/thjonusta/oldrunarthjonusta

Nú hafa viðmiðsmatseðlar HSN fyrir hádegisverði verið yfirfarnir af næringarráðgjafa HSN og mikilvægt að undirstrika að þessir matseðlar eru til viðmiðunar fyrir sjúkrahúseldhúsin að vinna eftir. Það er nú þegar í vinnslu að hvert og eitt sjúkrahúseldhús samræmi sína eigin staðbundnu raunmatseðla m.t.t. hráefnisnotkunar eftir dögum miðað við þessa viðmiðsmatseðla. Þannig skapast aukið svigrúm til þess að gera betri sameiginleg hráefnisinnkaup fyrir sjúkrahúseldhús HSN.

Vert er að benda á að raunmatseðlar hvers eldhúss fyrir sig geti verið frábrugðnir viðmiðsmatseðlinum af mörgum ástæðum. Sem dæmi má nefna; staðbundnar og/eða árstíðabundnar venjur, staðbundin tilboð birgja á hráefni, breytingar vegna hátíðsdaga/annarra tyllidaga eða sérstakar óskir skjólstæðinga okkar. Einnig er markmið eldhúsa HSN að viðhafa enga matarsóun.

Stefnt er að því að næringarútreiknaðir hádegismatseðlar fyrir almennt fæði frá öllum sjúkrahúseldhúsum munu verða birtir á heimasíðu HSN á þessu ári. Vinnan í þessu rafræna kerfi er mislangt á veg komin í hverju eldhúsi fyrir sig, en til að byrja með eru það eldhús HSN Húsavíkur og Sauðárkróks sem birta sína matseðla fyrir næstu vikur.

Á þessu ári verður einnig unnið áfram að því að setja saman viðmiðsmatseðla fyrir morgunverði, kvöldverði, ásamt miðdegis- og kvöldhressingar á almennu fæði og munu þessir matseðlar birtast jafnóðum og þeir eru tilbúnir. Framtíðarsýnin er að samsvarandi vinna verði einnig gerð fyrir sérfæði sjúkrahúseldhúsanna.

Fyrir hönd Eldhúshóps HSN, 

Elín Sigurborg Harðardóttir, næringarráðgjafi HSN.

Smelltu hér til að opna matseðla í nýjum glugga