Í nóvember sl. samþykktu EYÞING, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga sameiningu félaganna þriggja undir hatti nýrra samtaka.
Þessi samtök atvinnuþróunar og sveitarfélaga á Norðurlandi eystra efna hér með til nafnasamkeppni um heiti félagsins.
Íbúar á svæðinu eru hvattir til að taka þátt í samkeppninni og finna hentugt og sterkt nafn á félagið. Ekki myndi það spilla ef heitið hefði skírskotun til starfssvæðisins og / eða gæfi með einhverjum hætti til kynna samstarf sveitarfélaganna á svæðinu.
Tillögum að heiti félagsins skal skilað inn fyrir kl 16:00 föstudaginn 10. janúar 2020. Nafnasamkeppnina má nálgast hér.
Eyþing er landshlutasamtök sveitarfélaga á Norðausturlandi og innan Eyþings eru 13 sveitarfélög með liðlega 30.000 íbúa. Sveitafélögin eru Akureyri, Norðurþing, Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Skútustaðahreppur, Tjörneshreppur, Þingeyjarsveit, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð. Eyþing var stofnað árið 1992 þegar Fjórðungssamband Norðlendinga var lagt niður.
Hlutverk Eyþings er að vera samráðsvettvangur aðildarsveitarfélaganna og sinna hverjum þeim verkefnum sem sveitarfélögin eða löggjafinn kunna að fela þeim. Markmið samtakanna er að efla samvinnu sveitarfélaganna, gæta hagsmuna þeirra, styrkja byggð og mannlíf á starfssvæðinu öllu, atvinnulega, félagslega og menningarlega.
Markmiðum sínum skulu samtökin ná m.a. með samstarfi við aðrar samstarfsstofnanir sveitarfélaga á starfssvæðinu. Þá starfa samtökin í nánum tengslum við ráðuneyti sveitarstjórnarmála, Samband íslenskra sveitarfélaga og önnur landshlutasamtök sveitarfélaga.
Sjá einnig vefsíðu Eyþings hér.