Slökkvilið Fjallabyggðar fékk nú eftir áramót beiðni um aðstoð vegna reyks í íbúð í sveitarfélaginu.

Í ljós kom að hleðslurafhlaða í ferðahátalara hafði að öllum líkindum brunnið og sprungið og lítið mátt út af bregða að verr færi. Enginn var heima þegar atvikið átti sér stað en reykskynjari í íbúðinni gerði nágrönnum viðvart.

Slökkvilið hvetur fólk til þess að skilja hverskyns hleðslurafhlöður ekki eftir í sambandi við straum eftirlitslaust. Þá sannar tilgangur reykskynjara hlutverk sitt enn og aftur og hvetur slökkvilið fólk til þess að hafa reykskynjara í hverju rými á heimili.

Mynd/Slökkvilið Fjallabyggðar