Nautagúllas með sólþurrkuðum tómötum

  • um 900 g nautagúllas
  • 2 msk ólívuolía
  • 1 laukur, hakkaður
  • 4 hvítlauksrif, fínhökkuð
  • 1 litil bjórdós (33 cl.). Ég var með Víking.
  • 2 msk Worcester sósa
  • 4 bollar vatn
  • 2 nautateningar
  • 1 grænmetisteningur
  • ½ bolli sólþurrkaðir tómatar, hakkaðir
  • ½ tsk salt
  • ½-1 tsk paprika
  • ½ msk dijon sinnep
  • rauðar kartöflur, skornar í fernt
  • gulrætur, skornar í sneiðar

 

.

 

Hitið ólívuolíu í stórum potti eða djúpri pönnu og brúnið kjötið á öllum hliðum. Færið kjötið yfir á hreinan disk og setjið lauk og hvítlauk í pottinn. Þegar laukurinn er orðinn mjúkur er bjórnum hellt yfir.

Hrærið í pottinum þannig að krafturinn á botninum blandist í vökvann.

 

.

 

Bætið Worcester sósu, vatni, krafti, sólþurrkuðum tómötum, salti, papriku og sinnepi í pottinn og látið suðuna koma upp. Bætið kjötbitunum í pottinn og lækkið hitann í væga suðu. Látið lokið á pottinn og látið sjóða við vægan hita í 2 klukkustundir.

Bætið þá kartöflum og gulrótum í pottinn og látið sjóða í 30 mínútur til viðbótar. Rétt áður en rétturinn er borinn fram er tekinn 1 bolli af vökva úr pottinum, hrært 2 msk. af hveiti saman við og hrært aftur út í pottinn. Þetta er gert til að þykkja sósuna.

Berið réttinn fram með góðu brauði með grófri skorpu.

 

.

 

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit