Mega aðstandendur sjá um undirbúning og framkvæmd útfara og þurfa líkkistur að fylgja einhverjum stöðlum?

Útför er yfirheiti og er það notað um athöfnina sjálfa. Jarðarför er einnig oft notað um athöfnina og jarðsetningu ef um kistu er að ræða en bálför ef brennt er.Það er ekki lagaskylda að útför fari fram og það þarf ekki samkvæmt núgildandi lögum að flytja lík í líkhús. Ekkert er því til fyrirstöðu að hinn látni sé fluttur beint af dánarstað í kirkjugarð þegar læknir hefur gefið út dánarvottorð og viðkomandi sýslumanni hefur verið afhent dánarvottorðið.

Þar þarf hvorki prestur né útfararstjóri að koma að. Því er þó þannig farið hér á landi að undantekningarlaust fer fram útför og stýra prestar eða forystumenn safnaða þeim í nær öllum tilfellum.Ekkert bannar að aðstandendur geti sjálfir séð um allt það sem prestar og útfararstjórar sjá um, það er leggja líkið í kistu, flytja kistuna í útför, stjórna útfararathöfn og flytja kistuna frá útför í garð.

Ísland er dreifbýlt land og það er ekki nema á stærstu þéttbýlisstöðunum sem útfararstofur eru starfræktar. Þar gerir skipulag líkhúsa ráð fyrir að þjónustan sé á höndum útfararstofa en ekki aðstandenda en í dreifðari byggðum eru það gjarnan aðstandendur sem sjá um þessi mál.

 

Eftir bálför er aska látins manns varðveitt og jarðsett í duftkeri. Duftker er jarðsett í duftgarði eða ofan á kistuleiði en einnig er leyfilegt að dreifa ösku innan kirkjugarðs eða yfir haf og óbyggðir.

 

Kistan þarf að uppfylla reglugerð um kistur, duftker, greftrun og líkbrennslu samkvæmt reglugerð nr. 668/2007.Í 2. grein um markmið stendur:

Þannig ætti mengun við niðurbrot kistu eða duftkers í jarðvegi og við líkbrennslu að verða í lágmarki, ásamt því að tryggja öryggi við líkbrennslu.

Sérstök ákvæði eru um gerð kistu, efnivið (ytri sem innri) og yfirborðsmeðhöndlun, áfastar og lausar kistuskreytingar, samsetningarefni og handföng. Gerður er munur á grafarkistu og brennslukistu í þessum efnum.Grafarkista er líkkista sem nota skal við greftrun og á allt sem viðkemur líkkistunni að vera umhverfisvænt og samlagast jarðveginum á eðlilegum tíma. Þannig á kistan sjálf að vera úr óvatnsvörðum efniviði sem veldur ekki mengun og þarf hún að vera bæði loftheld og vatnsheld. Áfastir hlutir, svo sem handföng, skreytingar, kistuloksskrúfur, límefni og innri umbúnaður skulu einnig vera úr viðurkenndu niðurbrjótanlegu efni hvort sem það er tré, plast, reipi eða eitthvað annað. Samsetningarefni úr málmi, það er vinklar, skrúfur, naglar og hefti mega ekki vega meira en 200 grömm.

Brennslukista er líkkista sem nota skal við líkbrennslu. Hér er aðalatriðið að kistan og áfastir hlutir séu úr efni sem veldur ekki mengun við brennslu. Það er nauðsynlegt að kistan sé efnismikil til að líkið nái að brenna fyrir tilstuðlan orku frá brennandi trjáviðnum. Því er tekið sérstaklega fram í reglugerðinni að kistan skuli vera minnst 14 mm að þykkt. Samsetningarefni úr málmi mega ekki vega meira en 250 grömm.í 7. grein er greint frá skyldum aðila er annast útfararþjónustu fyrir líkbrennslu:

Útfararstjórar svo og aðrir, er annast undirbúning og frágang hins látna í líkkistu fyrir líkbrennslu eða greftrun, skulu ganga úr skugga um að ekki séu lagðir í kistuna aðskotahlutir sem valdið geta sprengihættu eða mengun við líkbrennslu eða mengun við greftrun.

Þá er sérstaklega minnst á gangráða og önnur álíka hjálpartæki í þessu samhengi.

 

Líkkista þarf að uppfylla reglugerð nr. 668/2007 um kistur, duftker, greftrun og líkbrennslu þar sem meginmarkmið snúa að því að halda mengun í lágmarki.

 

Duftker eru kerílát sem aska látins manns er varðveitt í eða jarðsett í. Í 14. grein stendur um duftker:

Duftker þessi skulu gerð úr niðurbrjótanlegu efni, svo sem léttbrenndum leir, tré, hertum pappa eða öðru jafngildu efni.Þó má notast við ker úr haldmeira efni sem ekki veldur mengun í jarðvegi. Duftker sem ætluð eru til dreifingar ösku utan kirkjugarða skulu vera úr forgengilegu efni og brennd strax að lokinni dreifingu. Nota skal sérstök öskudreifingaker, þegar ösku er dreift á þar til gerða reiti innan kirkjugarðs.

Það er því ýmislegt sem þarf að huga að þegar kemur að jarðarför og bálför. Nánari upplýsingar er að finna í reglugerð nr. 668/2007.

 

Vísindavefurinn
Myndir: Kristín Sigurjónsdóttir