Fréttaritar Trölla.is, þau hjónin Kristín Sigurjónsdóttir og Gunnar Smári Helgason dvelja hluta úr ári á Gran Canaria. Þau búa í helli sem þau eiga í Angostura gljúfri ásamt 25.000 fm. landi í fjöllunum fyrir ofan bæinn Vecindario.

Í dag eru 43 dagar síðan stjórnvöld settu á útgöngubann hér á Gran Canaria og 45 dagar síðan ég hef séð aðra mannveru en Gunnar Smára. Það stendur til að halda útgöngubanninu til 10. maí með einhverjum tilslökunum í byrjun maí.

Hér á Kanaríeyjum er tekið mjög hart á brotum gegn útgöngubanni og er fólk hiklaust sektað er það fer ekki eftir þeim. Allt mannlíf hefur legið í dvala og farið að taka á fólk að vera svona innilokað á heimilum sínum sem von er.

Við hellishjónin höfum tekið þessum takmörkunum á okkar venjubundnu lífsháttum með æðruleysi og þolinmæði, þó svona einangrun taki verulega í svona einn og einn dag.

Í venjulegu árferði værum við farin að huga að heimferð, eins og staðan er núna er algjörlega óvíst hvenær ferðalög hefjast á nýjan leik. Frá því landið lokaðist hafa nánast einungis verið fraktflug og ekki er búið að gefa út hvenær opnað verður fyrir fyrir almennt flug.

Þann 23. apríl bauðst okkur Íslendingum flug Air Atlantic frá Tenerife og Gran Canaria til Stokkhólms. Okkur fannst það ekki fýsilegur kostur og óþarfa áhætta því við hefðum þurft að gista í tvær nætur í Stokkhólmi.

Svo nú er bara að bíða og sjá hvernig fram vindur næstu vikurnar og erum við ákveðin að halda okkur sem mest hér upp í fjöllum. Ég fékk þær fréttir í dag að ekkert smit hafi greinst meðal fjallabúa hér á Kanaríeyjum svo það er best að halda sig sem mest frá fjölmenninu.

Það sem upp úr stóð í vikunni var þegar við hjónin skelltum okkur í göngutúr í nágrenninu til að skoða gamlar mannvistaleyfar. Var mögnuð tilfinning að sjá hvernig lífsháttum eyjarbúa var háttað þegar þeir bjuggu allt sitt líf við frumstæðar aðstæður í hellum.