Vetraríþróttir eru vinsælar á Tröllaskaga og íbúarnir elska að leika sér í snjónum.

Einn þeirra er Frímann Geir Ingólfsson nemandi í MTR en hann kýs vélsleða fram yfir skíðin og sigraði í sportflokki í snjókrossi um síðustu helgi.

Þetta er aðeins annar veturinn sem Frímann keppir á vélsleða en hann hefur stundað mótókross frá sex ára aldri.

Þegar hann svo prófaði að keppa á vélsleða í fyrra var ekki aftur snúið.

Í fyrra keppti hann í unglingaflokki og hafnaði í öðru sæti og eftir sigurinn um helgina hækkar hann enn um flokk.

Það eru því miklar framfarir hjá þessum unga vélsleðakappa og fólkið í MTR er ákaflega stolt af að hafa hann í sínum röðum.


Forsíðumynd: Frímann Geir á flugi yfir Fjarðarheiði um síðustu helgi.
Ljósmynd: Katla Mjöll Gestsdóttir

Skoða á vef MTR