Nemendur 10. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar tóku þátt í Fjármálaleikunum 1.- 8. mars sl. og höfnuðu í 3. sæti og fengu 150.000 kr í verðlaun. Alls tóku 55 skólar á öllu landinu þátt þannig að þetta er frábær árangur hjá þeim.
Fjármálaleikar eru haldnir árlega í fjármálalæsi milli grunnskóla fyrir nemendur í 10. bekk. Hver nemandi svarar 48 fjölbreyttum spurningum sem snúast um tryggingar, réttindi og skyldur á vinnumarkaði, lífeyrissparnað, vexti, laun og ýmislegt sem snýr að fjármálum einstaklinga.
Meginmarkmið með þessari keppni er að efla fjármálalæsi ungmenna. Nemendur hafa lært heilmikið um fjármál og frábært að geta tekið þátt í svona skemmtilegri keppni í leiðinni.
Grunnskóli Fjallabyggðar hefur staðið sig vel í leikunum undanfarin ár en það er stærðfræðikennari unglingadeildar, Sigurlaug Ragna Guðnadóttir, sem heldur utan um keppnina.
Mynd/Grunnskóli Fjallabyggðar