Úrslit í árlegri teiknisamkeppni grunnskólanema liggja nú fyrir en á dögunum tók Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, þátt í vali á verðlaunamyndum í samkeppninni.

Öllum nemendum 4. bekkjar er boðið að taka þátt en þessi skemmtilega teiknisamkeppni hefur notið mikilla vinsælda meðal nemenda, kennara og skólastjórnenda í áraraðir og eru allir sem hlut eiga að máli sammála um að keppnin sé bæði góð hvatning fyrir nemendur og skemmtileg leið til að brjóta upp hefðbundið skólastarf. 

Rúmlega 1.200 myndir bárust í keppnina frá 60 skólum um land allt og að lokum voru tíu verðlaunamyndir valdar úr þessum mikla fjölda og hafa skólastjórnendur í viðkomandi skólum fengið gleðifréttirnar.

Verðlaunahöfum eru veittar viðurkenningar fyrir teikningar sínar og til viðbótar er hver mynd verðlaunuð með 40.000 kr. peningagjöf frá MS, sem rennur óskipt í bekkjarsjóð viðkomandi, og geta nemendur þannig nýtt upphæðina til að gera sér smá dagamun í samvinnu og samráði við umsjónakennara. 

Verðlaunahafar í teiknisamkeppni 4. bekkinga skólaárið 2022-2023 eru:
• Baldvin Þórir Davíðsson, Lágafellsskóla
• Daníel Númi Kjærnested, Helgafellsskóla
• Edda Bjarney Víkingsdóttir, Aþena Vigdís Sigurðardóttir og Ragnheiður Lilja Steinarsdóttir, Síðuskóla
• Embla Dröfn Hákonardóttir, Salaskóla
• Guðrún María Hjaltadóttir, Freyja Karítas Finnsdóttir og Aldís Kara Arnarsdóttir, Lindaskóla
• Júlíana Rós Þorsteinsdóttir, Adríana Diljá Hólm Elísdóttir og Þórdís Embla Guðjónsdóttir, Grunnskóla Fjallabyggðar
• Kamilla Elín Óttarsdóttir, Breiðagerðisskóla
• Katla María Kale og Dröfn Hilmarsdóttir, Grunnskóla Vestmannaeyja
• Lísa Zhu Lyu, Flataskóla
• Viktoría Dalitso Þráinsdóttir, Árbæjarskóla  
Sjá nánar á síðu MS


Mynd/af vefsíðu Grunnskóla Fjallabyggðar.
Þar eru þær Adríana Diljá Hólm Elísdóttir, Júlíana Rós Þorsteinsdóttir og Þórdís Embla Guðjónsdóttir með verðlaunamyndina.