Hópur sjö MTR-nema og eins kennara dvelur þessa viku á Tenerife og tekur þátt í Erasmus+ verkefninu HELP sem snýst meðal annars um endurvinnslu. Jafn stórir hópar ungmenna frá Litháen og Noregi taka þátt í verkefninu auk hóps heimamanna á Tenerife. Í fyrri áföngum þess var fjallað um vistvænar afurðir og um mengun.
Meðal viðfangsefna hefur verið að endurvinna boli sem þátttakendur komu með að heiman, klipptu þá til og bjuggu til innkaupapoka. Krakkarnir segjast hafa lært helling um hvernig endurvinnslu er háttað í hinum löndunum en á mánudaginn kynntu þau hvernig endurvinnsla fer fram í MTR og þeirra heimabyggð.
Heimsókn í endurvinnslustöð var á dagskrá í gær en í ljós kom að líklega ætti fremur að kalla þetta flokkunarstöð. Þar kom fram að 50% af rusli sem safnað er á eynni er urðað, 15% er lífrænn úrgangur sem er notaður í moltu og fleira og 35%, mest plast, er þjappað í böggla sem eru sendir til meginlands Spánar og endurunnið þar. Landrými er takmarkað á Tenerife og aðeins um fimmtán ár í að urðunarstaðir fyllist ef svo heldur fram sem horfir.
Ýmislegt vekur athygli MTR-hópsins og hefur hann til dæmis komist að því að spænsk stjórnvöld skattleggja sólargeislana, þ.e. í stað þess að veita þeim sem nýta vilja sólina sem orkugjafa skattaívilnanir, eru sólarsellur skattlagðar upp í topp.
Suðurhluti eyjunnar virkar frekar hrjóstrugur en fyrir norðan, þar sem hópurinn dvelur í bænum Puerto de la Cruz, er miklu grænna og grösugra. Í gær fór hópurinn að eldfjallinu El Teide og spókaði sig í öskjunni við fjallið. Þeim fannst landslagið eins og blanda af eyðimörk og Mývatnssveit. El Teide er hæsti tindur Spánar, liðlega þrjú þúsund og sjö hundruð metrar.
Í þessari ferð lærði okkar fólk hvaðan nafn eyjunnar kemur, tene þýðir fjall og rife þýðir hvítt þannig að Tenerife þýðir fjallið hvíta.
Frétt og mynd: MTR