Í tilefni af degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember sl. efndi Menntamálastofnun til vísnasamkeppni grunnskólanema, Vísubotn 2019, í samvinnu við KrakkaRÚV.
Í keppninni spreyttu nemendur sig á því að botna fyrriparta eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson. Um var að ræða tvo fyrriparta fyrir hvern aldursflokk á yngsta-, mið- og unglingastigi. Fyrir besta vísubotninn á hverju stigi eru veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjöl.
Alls bárust Menntamálastofnun 535 vísubotnar frá 21 skóla víðs vegar af landinu.
Frá yngsta stigi bárust samtals 256 vísubotnar, 182 frá miðstigi og 97 botnar frá unglingastigi.
Í fyrsta sinn í níu ára sögu keppninnar komu tveir vinningshafar frá sama skóla, Grunnskólanum í Fjallabyggð en það voru þau Aron Óli Ödduson í 4. bekk sem var hlutskarpastur á yngsta stigi og Helena Reykjalín Jónsdóttir í 9. bekk var hlutskörpust á unglingastigi. Stórkostlegur árangur hjá þeim Aroni Óla og Helenu.
Hér fyrir neðan má sjá vísubotn Arons Óla (feitletraður)
Heim ég fer með létta lund,
leik mér eftir skóla.
Fæ mér drykk og fer í sund,
fer svo út að hjóla.
Og vísubotn Helenu Reykjalín Jónsdóttur:
Manna verk er mengun öll,
margt sem þarf að laga.
Stöndum upp og stöðvum spjöll,
stefnum á betri daga.
Menntamálastofnun birti einnig nokkra vísubotna sem taldir voru meðal þeirra bestu og hér átti Grunnskóli Fjallabyggðar fleiri fulltrúa.
Erling Þór Ingvarsson, 4. bekk:
Heim ég fer með létta lund,
leik mér eftir skóla.
Nenni ekki að fara í sund,
hjóla heim til hans Óla.
Sverrir Freyr Lúðvíksson, 4. bekk:
Heim ég fer með létta lund,
leik mér eftir skóla.
Fer svo beint á strákafund
síðan út að hjóla.
Mundína Ósk Þorgeirsdóttir, 4. bekk:
Heim ég fer með létta lund,
leik mér eftir skóla.
Fer svo eftir smá í sund
en fyrst ég ætla að hjóla.
Sigríður Birta Skarphéðinsdóttir, 8. bekk:
Nóttin lengist, nálgast haust,
nístir kaldur vindur.
Flestir bátar fara í naust,
fenna úti kindur.
Manna verk er mengun öll,
margt sem þarf að laga.
Ruslið út um víðan völl,
vond er þessi saga
Helena Reykjalín Jónsdóttir, 9. bekk
Nóttin lengist, nálgast haust,
nístir kaldur vindur.
Árið styttist endalaust,
ótti marga bindur.
Trölli.is óskar vinningshöfum til hamingju með frábæran árangur.
Myndir eru af vef Menntamálastofnunar og fréttina má lesa í heild sinni hér.