Á miðnætti var 741 svar skráð við skoðanakönnun sem trolli.is gerði hér á vefnum varðandi byggingu gervigrasvallar í Ólafsfirði.

Trölli.is notast við vefmælingu Modernus til að fylgjast með umferð á vefnum. Í þeirri mælingu koma fram bæði flettingar og fjöldi notenda.

Fjöldi notenda á skoðanakönnunni var 637, þannig að það má álykta að könnunin gefi nokkra mynd af afstöðu lesenda þrátt fyrir að einhverjir hefðu fyrir því að senda inn fleiri en eitt svar.

Könnun þessi er með þeim hætti að hver sem er getur skráð svar, og hægt er að skrá oftar ein einu sinni, með því að opna könnunina aftur, líkt og gert er t.d. á visir.is og í Eurovison söngvakeppninni.

“Fylgjandi” og “Mjög fylgjandi” eru samtals 57.9%, en “Á móti” og “Mjög á móti” eru samtals 38.4%. “Alveg sama” var 3.6%.

Þessi könnun gefur því vísbendingu um að á heildina litið sé mikill stuðningur við byggingu gervigrasvallar í Ólafsfirði meðal lesenda.

Eins og greint var frá í frétt hér á trolli.is 4. janúar hljóðar fjárhagsáætlun Fjallabyggðar fyrir 2020 upp á 75 milljónir til framkvæmda við fyrsta áfanga byggingar gervigrasvallar í Ólafsfirði. Trölli.is hefur ekki undir höndum nákvæma verk- eða kostnaðaráætlun fyrir verkið í heild, en hér má finna deiliskipulag þar sem gert er ráð fyrir gervigrasvelli sem yrði keppnisvöllur fyrir Fjallabyggð, staðsettur á svipuðum stað og núverandi völlur.

Smella á mynd til að sjá hana stærri

Forsíðumynd: Fjallabyggð.