Samfélag og samskipti gagnaglímukappa efld með Netöryggiskeppni Íslands

Landskeppni Gagnaglímunnar fór fram 3. og 4. júní sl. þar sem 18 hæfileikaríkir keppendur öttu kappi í fjölbreyttum áskorunum á sviði netöryggis. Keppnin er haldin að frumkvæði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins en hún er framkvæmd af Gagnaglímufélagi Íslands sem eru frjáls félagasamtök sem stofnuð eru í þeim tilgangi að rækta og efla samfélag og samskipti gagnaglímukappa og efla öryggismenningu á Íslandi.

Elvar Árni Bjarnason bar sigur úr býtum í keppninni, Kristinn Vikar Jónsson hafnaði í öðru sæti og Dagur Benjamínsson í því þriðja. Þess má geta að Elvar Árni sigraði einnig í keppninni síðustu tvö ár en Kristinn Vikar árið 2020. Sérstök verðlaun voru veitt fyrir besta nýliðann í yngri flokki og hlaut Kristófer Helgi Antonsson þau. Þá fengu Elvar Árni og Brynjar Örn Grétarsson verðlaun fyrir bestu frammistöðu í staðbundnum verkefnum.

Reynir á bæði rökhugsun og skapandi hugsun

Tilgangur netöryggiskeppninnar er að ýta undir menntun og þjálfun í tölvuöryggismálum hér á landi til að mæta þeirri miklu vá sem tölvuárásir geta valdið. Í keppninni leysa keppendur gagnvirk verkefni sem líkja eftir raunverulegum öryggisgöllum sem komið hafa upp á síðustu árum. Verkefnin reyna jafnt á skapandi hugsun sem og rökhugsun. Þeir keppendur sem ná bestum árangri í landskeppninni eru svo valdir í landslið sem tekur þátt fyrir Íslands hönd í Evrópsku netöryggiskeppninni (e. European Cyber Security Challenge – ECSC) sem er ætluð ungmennum á aldrinum 14-25 ára. Evrópska keppnin fer fram í október og verður í þetta skiptið haldin í Hamar í Noregi.

Efling netöryggisþekkingar á Íslandi með netöryggisnámi á háskólastigi

Frá stofnun háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis í lok árs 2021 hefur mikil áhersla verið lögð á netöryggi og aukna getu Íslands á því sviði. Í aðgerðaáætlun stjórnvalda í netöryggi, sem er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi, er að finna 65 aðgerðir sem styðja við markmið sem sett eru fram í Netöryggisstefnu 2022-2037. Aukið námsframboð í netöryggisfræðum á háskólastigi er meðal aðgerða og er markmið hennar að hanna og skipuleggja nýtt meistaranám á sviði netöryggis. Aðgerðin er liður í að auka framboð og spurn eftir námi í netöryggi á háskólastigi við íslenska háskóla. Þá er henni einnig ætlað að auka samstarf milli íslenskra háskóla og erlendra þegar kemur að kennslu og rannsóknum á sviði netöryggis.

Nýlega fengu Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík 90 m.kr. úthlutað úr Samstarfi háskólanna til samstarfsverkefnis um tveggja ára netöryggisnám á meistarastigi og uppbyggingar rannsóknarseturs í netöryggi þar sem m.a. verður sérhæfing á sviði gervigreindar. Námskeið hjá háskólum erlendis verða nýtt sem hluti af náminu auk þess sem boðið verður upp á námskeið fyrir aðra háskóla á Íslandi. Námsleiðin verður í boði fyrir nemendur beggja skólanna og áhersla lögð á gott samstarf við atvinnulífið. Kennsla hefst haustið 2023 og fer hún fram á ensku til að ná fjölbreytts hóp nemenda.