Formáli:

Í rauninni hefði verið meira við hæfi að birta þessa átakanlegu sænsku sjóslysasögu frá 1918 um síðustu helgi á sjálfan sjómannadaginn.
En greinarhöfundi tókst ekki, að ná sambandi við rétta aðila hjá Sjóminjasafni Gautaborgar (formlega stofnað 1913) sem á höfundarréttinn af þessari sögu.

Hafið gefur og hafið tekur!
Eru orð sem oft eru sögð með sorgmæddum tón, út um allan heim á allskyns tungumálum. Í orðunum liggur sannleikurinn um að hafið getur vissulega gefið okkur gæfu og velferð, en það tekur líka sinn toll og allir sem hafa alist upp í sjávarplássum vita og skilja hvað þessi orð þýða í rauninni. Margir þurfa að heimsækja tómar grafir sjóvinnufólks í kirkjugörðum. Konur og karlar hvíla í votri gröf í sínum fljótandi vinnustað sem hvarf í djúpið. Þess vegna eru oftast till minnisvarðar með nöfnum þessa sjóvinnufólks á fallegum minnisvörðum út um allan heim.

Við sjóminjasafnið hér í hafnarborginni Gautaborg, sem er stórglæsileg og rótgróin stofnun, er hár turn og ofan á honum er frægt listaverk sem Gautaborgarar elska mikið og kalla í daglegu tali: Sjómannaeiginkonan, sumir segja sjómannaekkjan en það er ekki réttnefni heldur.
Því konan sem stendur þarna í vindinum efst í turninum veit ekki hvort hún er ekkja eða ekki. Skúlptúrinn heitir í rauninni:
Konan við hafið og er eftir Ivar Johnsson. Hún horfir yfir höfnina í Götaälven og er með fingurna kreppta í ákafri bæn og von um að eiginmaðurinn sé heill á húfi og komi fljótlega heim til hennar og barnanna.

Gríðarlega áhrifaríkur minnisvarði um sjómenn sem létust/tíndust í fyrri heimsstyrjöldinni. Efsti punktur turnsins er 62 metra yfir sjávarmáli og stendur efst í Stigbergs-hlíðinni og hefur staðið þarna síðan 1933.

Á sökkli turnsins eru nöfn 700 látinna sjómanna.

Þar á meðal er nafn yfirvélstjórans á fraktskipinu Adolph Mejer, en hann hét Ernst Josef Thorell og hann sendi á mikilli raunastund, föstudaginn 11 janúar, 1918, konunni sinni..

… Neyðarkall og ástarkveðju í flösku-pósti!

Á fögrum sumardegi 1918 bankar norskur sjómaður upp á hjá frú Constance Thorell í Alingsås og tveimur unglings sonum hennar. Alingsås er á þessum tíma lítið bæjarfélag í nálægð við hafnarborgina Gautaborg. Hann réttir henni flöskupóst sem inniheldur bréf sem hennar heittelskaði Ernst skrifaði til hennar. Hún hefur hingað til ekki fengið neinar fréttir af eiginmanninum í hálft ár.
Annað en að skipið með 16 manna áhöfn, er talið hafa farist í miklum janúarstormi á leið sinni með kolafarm frá Leith í Skotlandi til Gautaborgar.

Bréfið byrjar á nokkuð stuttri og nákvæmri lýsingu á því sem er að gerast og þar stendur meðal annars:
Ef við fáum ekki hjálp fljótlega, þá er þetta bara búið…

Ernst segir í bréfinu að skipið hafi tekið inn á sig mikinn brotsjó og við það hafi slökknað á eldinum undir gufukatlinum. Þeim hafði samt tekist að fá vélina í gang aftur í hálf aumu ástandi, en það hjálpar ekkert í þessu svakalega óveðri. Skipalestin sem þeir voru í sést ekki lengur.

Það er svo átakanlegt að hugsa til þess að yfirvélstjórinn, eiginmaðurinn og faðirinn Ernst Josef Thorell, hafi á þessari örlagastund haft sinnisró til að finna pappír, penna og flösku til að senda sín síðustu orð með sjálfu hafinu, sem er á næstu mínútum að fara að draga hann niður í djúpið. Ernst gefur sér tíma í að skrifa formlega dagsetningu, nafn og heimilisfang eiginkonunnar, nafnið á skipinu og útgerðarfélaginu, sem er Svenska Lloyd í Gautaborg.

Hann veit mikið vel hvað bíður hans og hinna 15 sem eru um borð. Ernst leggur líf sitt í hendur almættisins og þetta er hans eina von um að hans lokaorð í lífinu nái til þeirra sem hann elskar. Ástarorð sem vonandi fljóta í land í flösku.

Og þessi fljótandi orð, eru svo sannarlega STÓR….

“Ég vil þakka þér fyrir heilt líf í ást og umhyggju!

Flöskuskeytið er varðveitt á Sjóminjasafninu í Gautaborg sem gjöf frá eftirlifandi ættingjum Ernst og Constance Thorell.

Sjómaðurinn og vélstjórinn Ernst sinnir vélstjóraskyldum sínum og elskar fram í rauðan dauðan.
Það er líka aðdáunarvert að norski sjómaðurinn sem fann flöskuskeytið og hann hlýtur að hafa orðið djúpt snortinn af innihaldi flöskunnar. Gegnum þá samstöðu, sem alltaf finnst á milli sjómanna um allan heim, taldi hann það skyldu sína að sjá til þess persónulega að hin hinsta kveðja frá Ernst kæmist örugglega til skila.

Seinni tíma heimildir varðandi þessa sögu, gera hana í rauninni enn þá átakanlegri.
Þær segja okkur að ástandið var mun verra en Ernst kannski vill lýsa í bréfinu. Önnur skip í þessari fyrri heimsstyrjaldar skipalest, sáu að fraktskipið Adolph Mejer var í miklum vandræðum en gátu ekkert aðhafst vegna veðurs. Skipið hverfur sjónum þeirra og það er talið líklegt að Ernst og skipsfélagar hans, hafi að lokum aftur orðið vélarvana og rekið inn í þekkt tundurdufla svæði og fljótlega eftir það sprakk, þá þegar sökkvandi skipið í loft upp.

Það er ekki ólíklegt að Ernst vissi að þessi örlög gætu beðið hans líka, þegar hann skrifaði bréfið.

Hafsjór af sögum

Þessi saga er ein af mörgum sem varðveittar eru á Sjóminjasafninu hér í Gautaborg og tilheyrir söguarfinum “Hafsjór af sögum

Greinarhöfundur og þýðandi sögunnar vill benda öllum Íslendingum á að þetta gamla sögufræga sjóminjasafn er virkilega heimsóknarvert. Hér er fyrir utan sögur og munir, líka risastórt fiskabúr ( Akvariet ) sem sýnir okkur undurfagra undirheima hafsins.

Þakklætiskveður til starfsfólks sjóminjasafnsins fyrir að leyfa birtingu og aðgang að ljósmyndum.

Höfundur samantektar og þýðandi sögu:
Jón Ólafur Björgvinsson

Allar ljósmyndir eru birtar með leyfir frá:
Sjöfartmuseet akvariet i Göteborg

Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON