Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum að veita Neytendasamtökunum þriggja milljóna króna styrk af ráðstöfunarfé sínu í tilefni af 70 ára afmæli samtakanna sem fagnað er í dag. Markmið styrksins er að styðja við mikilvæg verkefni sem framundan eru hjá Neytendasamtökunum og má þar nefna úttekt þeirra á tryggingamarkaði á Íslandi og réttindum neytenda þegar kemur að tryggingamálum.
Síðastliðið haust voru framlög til Neytendasamtakanna einnig hækkuð í uppfærðum þjónustusamningi menningar- og viðskiptaráðuneytisins við samtökin. Er hækkunin í samræmi við áherslu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um styrkingu samtaka neytenda.
,,Frjáls félagasamtök gegna einkar mikilvægu hlutverki í samfélaginu og það er ánægjulegt að geta stutt öfluga starfsemi Neytendasamtakanna við þessi tímamót. Samtökin hafa látið sig margvísleg málefni neytenda varða og eitt af þeirra mikilvægustu verkefnum hefur verið að tryggja réttindi einstaklinga á leigumarkaði með leigjendaaðstoð um árabil,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
,,Neytendasamtökin hafa staðið vaktina í 70 ár en starf samtakanna skipta neytendur svo sannarlega máli. Það er sérstaklega mikilvægt að huga að vel að neytendamálum á tímum hárrar verðbólgu. Í slíku ástandi vex þörfin á öflugu neytendaeftirliti, en þurfa allir að vera á tánum gagnvart verðlagningu á vörum og þjónustu. Slíkt skiptir máli fyrir lífkjörin í okkar góða landi. Ég óska Neytendasamtökunum til hamingju með þennan merkisáfanga og hlakka til áframhaldandi samstarfs við þau,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Mynd/Neitendasamtökin