Hjá Skíðafélagi Siglufjarðar Skíðaborg er sannarlega nóg um að vera þessa dagana, þrátt fyrir snjóleysi í Skarðsdal. Starfsemin heldur áfram af krafti bæði innanlands og utan og endurspeglar vel þann mikla metnað sem einkennir félagið.

Skíðagönguhópur félagsins dvelur um þessar mundir í Nordseter í Noregi í æfingaferð. Á lokadegi ferðarinnar leggja iðkendur af stað á skíðum til Lillehammer, áður en haldið verður heim á morgun. Æfingaferðin hefur gengið afar vel og veitt dýrmæta reynslu og samveru fyrir hópinn.

Á sama tíma hélt alpahópur Skíðafélagsins af stað í morgun frá Keflavík til Neukirchen í Austurríki, þar sem fram undan eru tíu dagar af æfingum við krefjandi og góðar aðstæður. Slíkar ferðir skipta miklu máli í uppbyggingu bæði ungra og eldri iðkenda.

Heima fyrir var ekki síður líf og fjör. Í morgun fór vaskur hópur sjálfboðaliða í Hvanneyrarskálina þar sem tekið var niður ártal og ljós á brúninni. Verkefnið gekk vel og sýnir enn á ný hversu öflugur félagsskapurinn er, bæði innan vallar sem utan.

Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg er öflugt og lifandi félag, þar sem rík áhersla er lögð á samstöðu, gleði og fjölbreytta þátttöku. Félagið stendur öllum opið og er ætlað jafnt börnum sem fullorðnum, óháð reynslu eða getu.

Börn á aldrinum 5 til 16 ára geta hafið æfingar hjá félaginu hvenær sem er. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér starfið eða skrá börn til þátttöku geta haft samband í netfangið sigloskiteam@gmail.com til að fá nánari upplýsingar.

Meðfylgjandi mynd tók Helena Dýrfjörð og sýnir hópinn sem fór í morgun í Hvanneyrarskálina til að taka niður ártal og ljós á brúninni.