Markaðsstofa Norðurlands var tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar í ár, en verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Tilnefninguna hlaut MN vegna Norðurstrandarleiðar – Arctic Coast Way, sem opnaði við hátíðlega athöfn árið 2019 og hefur orðið að stórum segli í ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Sýningin Icelandic Lava Show hlaut verðlaunin, en auk þess var VÖK Baths á Egilsstöðum tilnefnt. Samtök ferðaþjónustunnar veita verðlaunin árlega, fyrir athyglisverðar nýjungar. Markmiðið er að hvetja fyrirtæki innan samtakanna til nýsköpunar og frumkvöðla til dáða í ferðaþjónustu. Alls bárust fjórtán tilnefningar til samtakanna en sem fyrr segir voru þessi þrjú fyrirtæki efst á lista dómnefndar, og fengu MN og Vök sérstakar viðurkenningar fyrir nýsköpun í ferðaþjónustu.

Í tilkynningu frá SAF segir: „Tilnefningarnar til Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar endurspegla mikla grósku og nýsköpun í ferðaþjónustu um allt land. Hugmyndaauðgi, stórhugur og fagmennska einkennir mörg þau fyrirtæki sem tilnefnd voru og var dómnefnd því ákveðinn vandi á höndum. Nefndarmenn voru þó einróma um að handhafi verðlaunanna í ár sé Icelandic Lava Show.“

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, Katrín Harðardóttir, verkefnastjóri Norðurstrandarleiðar og Halldór Óli Kjartansson, verkefnastjóri hjá MN, tóku við viðurkenningu vegna tilnefningarinnar á Bessastöðum.

„Það gleður okkur mikið að fá slíka tilnefningu og sýnir þann kraft sem einkennir norðlenska ferðaþjónustu. Verkefnið er sprottið úr nýsköpun ferðaþjónustunnar á Norðurlandi og sýnir vel þann sameiginlega slagkraft sem í henni býr. Því var það okkur mikill heiður að taka við viðurkenningunni fyrir hönd okkar samstarfsfyrirtækja,“ segir Arnheiður.