Þegar ég var barn á sjöunda áratug síðustu aldar var Bókasafn Siglufjarðar stór hluti af daglegu lífi hjá mér. Ófáar stundirnar sat ég þar og grúskaði í blöðum, upplifði ævintýraheim Prins Valíants, leysti dularfullar gátur í Nansý bókunum og hélt á bókastöflunum heim á leið til lestrar. Það var alltaf notalegt að koma inn í bókasafnið, starfsfólkið ætíð tilbúið að aðstoða og sussaði af og til á okkur krakkana ef við höfðum of hátt.

Er ég kom síðastliðinn föstudagsmorgun í bókasafnið til að hitta Hrönn Hafþórsdóttur bókasafnsfræðing fann ég fyrir þessum notalegheitum sem ég upplifði sem barn hér í bókasafninu, það er þó ein meginbreyting á því sem áður var, nú má hafa hátt í bókasafninu. Þar iðaði allt af lífi, sá háttur hefur verið hafður á undanfarið að annar, fjórði og fimmti bekkur úr Grunnskóla Fjallabyggðar hefur ásamt kennaranum Sigurbjörgu Bjarnadóttur komið í bókasafnið til að nema bókasafnsfræði alla föstudagsmorgna. Þegar ég var stödd þarna voru börn úr fjórða bekk að grúska, læra að leita í bókum eftir fyrirfram ákveðnu efni og öll höfðu þau vinnubækur til að vinna með. Börnin voru hin áhugasömustu og er greinilegt að þau höfðu gaman af þessu námi.

Áhugasamir krakkar

Hrönn Hafþórsdóttir tjáði mér að námið væri að skila sér í auknum áhuga barna á öllum aldri fyrir lestri bóka. Það hefur færst í auka að börn koma eftir skóla, stundum með nesti og sitja við lestur í safninu. Segir hún að þetta starf eigi eftir að skila sér til framtíðar í auknum bóklestri ungmenna.

Sigurbjörg Bjarnadóttir kennari og Hrönn Hafþórsdóttir bókasafnsfræðingur

Það er líka algengt að komið sé með börn af leikskólanum á bókasafnið, þeim er leyft að leika þar og venjast umhverfinu ásamt því að skoða bækur.

Á bókasafninu er einnig opin upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn og boðið upp þjónustu við bæjarbúa ef það þarf að skanna, ljósrita eða fjölfalda pappír. Þar er einnig tölva sem almenningur hefur aðgang að.

Til að skoða facebooksíðu bókasafns Fjallabyggðar: Smella hér

 

Texti og myndir: Kristín Sigurjónsdóttir