Hótel Edda er mætt á Spotify – CD í smíðum

Sjötta plata Ljótu hálfvitanna er komin á streymisveituna góðkunnu. Þangað eru allir velkomnir, eins og á hótelið sem kennt er við hótelstjórann geðþekka, og skyldi alls ekki ruglað saman við hótel sem eru kennd við eitthvað allt annað fólk.

Á Hóteli Edda eru tólf lög sem Hálfvitarnir hafa verið að skrúfa saman í vinnubúðum undanfarin ár og tóku loks upp í endanlegri mynd í stífri vinnutörn á því forna höfuðbóli Möðruvöllum í Hörgárdal í janúar síðastliðin undir dyggri stjórn Einars Vilberg, sem kom upptökunum síðan í endanlega mynd.

Það er óþarfi að taka fram að Hálfvitarnir eru ákaflega ánægðir með Hótelið sitt. Góður staður til að bíða af sér óáran. Heitur pottur, nóg nautahakk og elskulegasti hótelstjóri síðan Basil Fawlty. 

Fyrir safnara og fólk af gamla skólanum (og safnara af gamla skólanum) hefur verið sett í gang framleiðsla á svokölluðum geisladisk (CD) sem verður vonandi fáanlegur um miðjan apríl.


EF EINHVERN SKYLDI LANGA AÐ TALA VIÐ OKKUR UM ÞESSA AFURÐ ÞÁ ER T.D. HÆGT AÐ HRINGJA Í ÁRMANN GUÐMUNDSSON (864 4880) EÐA BALDUR RAGNARSSON (663 3620).