Sundlaugin í Hrísey fagnar 60 ára afmæli um þessar mundir og í tilefni þess ásamt því að liðin eru 16 ár frá vígslu Íþróttamiðstöðvarinnar var boðið upp á léttar veitingar í íþróttamiðstöðinni um síðustu helgi. Jafnframt voru nýir sauna- og infrarauðir klefar formlega teknir í notkun ásamt nýrri útiklukku.
Bára Steinsdóttir stýrði athöfninni og bauð gesti velkomna. Konur í Kvenfélagi Hríseyjar stigu fram og ávarpaði Hrund Teitsdóttir samkomuna fyrir þeirra hönd. Kvenfélagið samþykkti á aðalfundi sínum í febrúar að gefa sundlauginni infra rauðan klefa. Hrund sagði meðal annars frá því hvernig konur í kvenfélagi Hríseyjar unnu ötullega að því að sundlaugarbyggingin varð að veruleika á sínum tíma, héldu meðal annars kökubasara og skemmtisamkomur til að afla fjár til byggingarinnar. Hrund sagði meðal annars:
Saga sundlaugarbyggingarinnar sýnir dugnað og samstöðu Hríseyinga. Enn í dag sjáum þess merki að fólk vinnur víða óeigingjarnt starf í þágu eyjarinnar. Kvenfélagið ákvað á aðalfundi sínum í febrúar að minnst framtaks forvera sinna og fjárfesta í infra-rauðum klefa fyrir sundlaugina. Með því leggur kvenfélagið áfram sitt af mörkum til þess að bæta aðstöðu Hríseyinga til heilsueflingar og samveru.
Frábært framtak og voru kvenfélagskonum færðar þakkir fyrir rausnalega gjöf. Næst gaf Bára Ingólfi Sigfússyni, formanni hverfisráðs, orðið. Ingólfur tók fram að umræða um saunaklefa fyrir sundlaugina eigi sér nokkra ára sögu, hverfisráð viðraði möguleika á slíkum kaupum í árslok 2021 en það gekk ekki eftir. Í byrjun desember á síðasta ári fóru hjólin aftur að snúast, en meðal annars hafði Elín forstöðumaður sundlaugar Akureyrarbæjar frumkvæði af því að blása aftur lífi í saunaklefamálið. Í góðu samstarfi við Elínu og starfsfólk umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar þau Rut og Jón Birgi vann hverfisráð að því að pantaður var þessi glæsilegi Cubus saunaklefi frá sauna.is. Eyjasmíði ehf. annaðist uppsetningu á klefanum og Rafeyri ehf. vann svo við raflagnir og tengingar.
Elín H. Gísladóttir, fráfarandi forstöðumaður sundlauga Akureyrarbæjar fékk næst orðið, lýsti ánægju sinni með þær gjafir sem sundlaugin hefur hlotið og vakti athygli á því að ,,krossfarar” þeir Kiddi og Björgvin Páls voru að gefa nýjaklukku svo sundlaugargestir sjái hvað tímanum líður og hvaða hitastig er úti. Fyrir þá sem ekki þekkja til krossfara þá hafa þeir umsjón með að setja upp ljósakrossana í kirkjugarðinum yfir jólin. Elín vakti einnig athygli á að Ingólfur og Þróunarfélag Hríseyjar settu á dögunum upp tilkynningaskjá í forstofu íþróttamiðstöðvarinnar í staðin fyrir korktöfluna. Þá sagði Elín einnig frá þeim margvíslegu kostum sem sauna og infrarauð sauna geta haft fyrir heilsuna þó að varast beri að dvelja þar of lengi í senn. Hún þakkaði Báru fyrir frumkvæðið að því að halda upp á 60 ára afmælis sundlaugarinnar og stýra veisluhöldunum og færði starfsfólkinu bestu þakkir ásamt fleirum sem komu að undirbúningi og hafa unnið að því að setja upp nýju klefana.
Elín er að hætta störfum sem forstöðumaður sundlauga Akureyrar nú í sumar en hún tók við því starfi árið 2007. Þakkaði hún fyrir samstarfið og bauð Gísla Rúnar Gylfason, nýjan forstöðumann, velkominn til starfa. Gísli Rúnar ávarpaði samkomuna og sagðist hlakka til að takast á við nýtt starf og sinna þeim fjórum starfstöðvum sem sundlaugar Akureyrar reka.
Elín hafði beðið Gísla að taka með sér gítarinn þar sem hún vissi af trúbadors-hæfileikum hans og meðan gestir fengu sér veitingar spilaði Gísli og söng nokkur vel valin lög.
Þetta var afar skemmtilegur viðburður með glæsilegum veitingum. Nú er um að gera að drífa sig í sund í Hrísey og prófa bæði sauna- og infrarauðu klefana.
Mynd og heimild/ hrisey.is