Þann 15. júní næstkomandi tekur gildi auglýsing heilbrigðisráðherra um frekari tilslökun á samkomubanni vegna COVID-19. Meginbreytingin felst í því að fjöldamörk á samkomum hækka úr 200 í 500. Núgildandi takmarkanir á gestafjölda sundlauga og líkamsræktarstöðva við 75% af leyfilegum hámarksfjölda falla jafnframt niður 15. júní. Aðrar breytingar verða ekki.

Ákvörðunin er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis í meðfylgjandi minnisblaði til ráðherra. Þar kemur fram að nýsmitum hefur fækkað verulega á undanförnum vikum og hafa einungis 9 einstaklingar greinst í maí og sem af er júní. Af þeim greindust tveir á veirufræðideild en 7 hjá Íslenskri erfðagreiningu sem er vísbending um að það sé mjög lítið af virku smiti í samfélaginu, segir í minnisblaðinu.

Fyrsta aflétting á samkomutakmörkunum var gerð þ. 4 maí síðastliðinn, önnur aflétting var gerð 18. maí en þá voru sundlaugar opnaðar með 50% leyfilegum hámarksfjölda gesta og þriðja aflétting var gerð 25. maí síðastliðinn. Engin aukning smita hefur sést í kjölfar þessara tilslakana.

Heimild: stjornarradid.is